Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg og Miðborgin okkar héldu sameiginlegan opin fund í Ráðhúsinu þriðjudaginn 11. september sl. um reynslu Akureyringa af svokölluðu bílaklukkum, eða framrúðuskífum, í stað gjaldmæla. Frummælendur á fundinum voru Ragnar Sverrisson, formaður Kaupmannasamtaka Akureyrar, og Guðmundur Jóhannsson, fyrrverandi formaður skipulagsnefndar Akureyrarbæjar, en Guðmundur átti mestan þátt í að bílaklukkan var innleidd þar nyrðra.
Í máli Akureyringanna kom fram að mikil og almenn ánægja er með hið nýja fyrirkomulag, en tekjur bílastæðasjóðs bæjarins eru meiri nú en fyrir breytinguna, stæðin nýtast miklu betur en fyrr og kaupmenn herma að verslun í miðbænum hafi tekið fjörkipp.
Fundurinn ályktaði að vert væri að kanna til hlítar möguleika á að taka upp bílaklukkur í Reykjavík í stað gjaldmæla og skorar á borgaryfirvöld að koma á samstarfshópi borgarinnar og hagsmunaaðila í miðborginni sem myndi kynna sér betur kosti þessa fyrirkomulags.