Danski verkfræðingurinn Jørgen Hammer var í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins, 18. ágúst 2012, en hann var einn þeirra sem lagði grunninn að aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir rúmum fjörutíu árum. Við skulum grípa niður í viðtalið þar sem Jørgen talar um skipulag miðborgarinnar:
„Við lögðum til að miðbærinn og höfnin myndu tengjast betur í framtíðinni en þau gerðu. Hugmyndin var að lyfta Geirsgötunni upp á aðra hæð, svo hægt væri að ganga úr miðbænum, undir umferðina og niður að höfn. Við sjáum ákveðin merki um þetta enn á þaki pakkhússins norðan við Tollhúsið.“
Þakið er hannað sem fjögurra akreina vegur. Vegurinn átti að taka við umferð af Sæbraut og leiða hana á Mýrargötu án þess að hindra umferð gangandi vegfarenda að höfninni.
„Það hefði verið gaman að sjá miðbæinn og höfnina vaxa betur saman. Slík tenging hefur reynst vel annars staðar og aukið gæði miðbæjarsvæða ýmissa borga því höfnin er spennandi staður,“ segir Hammer og lætur sig dreyma.
„Þannig væri kannski hægt að ganga verslunar- og göngugötur sem lægju niður að höfn. Þar væri síðan hægt að fara út að borða á fiskveitingastöðum með útsýni yfir höfnina. En höfnin hefur aldrei fengið tækifæri til að vaxa saman við miðbæinn. Bærinn snýr bakinu í höfnina og hún er hálfpartinn lokuð af, fyrst með þungri umferð á Geirsgötu, svo með stórhýsum eins og Tollhúsinu, Hafnarhúsinu þar sem Listasafn Reykjavíkur er nú og fleiri háum dökkgráum byggingum. Stutt frá þessum húsum er svo Vesturgata, sem skartar fallegri röð af timburhúsum. Andstæðurnar skera í augun,“ segir Hammer.
Nokkur heilræði
Hammer segist ekki vilja setja sig á háan hest og koma með tillögur að betra fyrirkomulagi í bænum enda sé miðborgarskipulag afar flókið fyrirbæri. Hann hefur hins vegar nokkur góð og almenn ráð sem hann er tilbúinn til að veita.
„Mér finnst mjög mikilvægt að haldið sé í gamlar hefðir. Í hinum alþjóðlega heimi er fólk farið að upplifa sömu hlutina aftur og aftur og víðar og víðar um allan heim. Við sjáum alls staðar sömu bílana, svipaðar byggingar og sömu hamborgarana og pitsurnar.
Þegar við komum sem ferðamenn á nýja staði viljum við sjá eitthvað nýtt, eitthvað spennandi og framandi. Frá mínum sjónarhóli eru staðir framandi þar sem tekist hefur að halda í gamlar hefðir og menningu. Slíkir þættir eiga hins vegar verulega undir högg að sækja,“ segir Hammer.
Í viðtalinu minnist Jørgen sérstaklega á Santa Fe, höfuðborg Nýju Mexíkó:
„Í Santa Fe hafa menn sett ákveðnar kröfur um að allar byggingar í bænum þurfi að fylgja byggingarhefðum púebló-indíána í takt við menningararfinn. Þar mega húsin ekki vera nema fjórar hæðir og þau eiga öll að vísa til ákveðinnar byggingarhefðar.
Vegna þessa hefur myndast ákveðið samræmi í bænum og fyrir vikið upplifir maður staðinn sem framandi og spennandi. Santa Fe er líka mjög vinsæll ferðamannastaður í Bandaríkjunum, enda er borgin ólík öllum öðrum.“
Enga íhaldssemi
Hammer telur mikilvægt að rækt við ræturnar og þjóðararfinn leiði ekki til íhaldssemi. Byggingarlist þurfi að þróast eins og allt annað.
„Mér finnst mikilvægt að ég hljómi ekki eins og ég sé íhaldssamur, því þegar ég tala um að halda þurfi í gamla menningu og siði er ég ekki að tala fyrir íhaldssemi. Ég vil ekki að við endum sem eitthvert Árbæjarsafn. Við þurfum á endurnýjun að halda, en við verðum gera það með tilvísun í gamlar hefðir, þannig að fólk sem kemur til landsins finni fyrir því að hér vinni fólk á annan hátt en annars staðar og finnist landið sérstakt og framandi.“
Hann segir þetta alls ekki óþekkt á Íslandi.
„Þetta er eins og með íslenskuna. Þið segið ekki „computer“ heldur tölva og þið segið geisladiskur en ekki „cd“. Þessa hugsun þurfið þið að tileinka ykkur í byggingarstíl í ríkari mæli. Gott dæmi um byggingu þar sem þetta er gert er Fontana við Laugarvatn. Staðurinn er hannaður þannig að húsið vísar í gamlar íslenskar hefðir, þar sem notað er torf og grjót að einhverju leyti í bygginguna. Þetta fær mann til að hugsa: „Spennandi!“ Og svona hughrif fá fólk líka til að vilja koma aftur til landsins.“