Björn Jón Bragason, frkvstj. Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg, fjallar hérna um horfnar verslanir í miðborginni.
Í miðborginni var áður dýrasta verslunar og skrifstofuhúsnæði landsins – nú er leigan aðeins brot af því sem hún er í Kringlunni og hærri leiga víðast hvar á öðrum verslunarsvæðum, svo sem inn við Skeifu, Faxafen, Ármúla, Síðumúla og þar í grennd. Og það var líka meira líf á kvöldin sem fylgdi rúntinum alla vikuna. Nú eru aðeins tvo bíóhús eftir vestan Kringlumýrarbrautar, Háskólabíó og Regnboginn. Austurbæjarbíó er farið, sömuleiðis Hafnarbíó, Nýja Bíó og Gamla Bíó. Stjörnbíó hvarf á braut árið 2002, en þá hafði aðsókn dalað mjög mikið og færst í nýju kvikmyndahúsin í úthverfunum.
Árið 1986 voru fjórar húsgagnaverslanir í miðborginni, átta leikfangaverslanir, fimm raftækjaverslanri, átta sportvöruverslanir og alls tuttugu skóbúðir, svo dæmi sé tekið. Núna er engin blómabúð lengur við Laugaveginn, engin hljómtækjaverslun og raunar engin raftækjaverslun, engin húsgagnaverslun, engin sportvöruverslun. Fyrir tuttugu árum voru fjórar snyrtivöruverslanir við götuna, nú er aðeins ein eftir.
Og áður voru fjögur bakarí við Laugaveginn en nú er bara eitt eftir, Sandholtsbakarí. Árið 1986 voru sextán ferðaskrifstofur í miðborginni og lengi voru líka tvær af þremur áfengisútsölum bæjarins í miðborginni. Nú er aðeins ein af sjö áfengisútsölum staðsett þar. Það er áfengisverslunin í Austurstræti 10.
Þegar mest var á áttunda áratugnum voru ellefu bankaútibú frá Austurstræti upp á Hlemm, núna eru aðeins fjögur eftir, þar að aðeins eitt á Laugaveginum, en til stendur að leggja niður útibú Landsbankans hér að Laugavegi 77.