Sumarið 1973 var Austurstræti lokað fyrir bílaumferð – fyrst „til reynslu“. Tilraunin sætti harðri gagnrýni og nálega hver einasti kaupmaður við götuna mótmælti áframhaldandi lokun, en allt kom fyrir ekki. Hérna að neðan má finna glefsur úr umfjöllun þessa tíma um lokunina, en þáverandi borgarstjóri Birgir Ísleifur Gunnarsson hafði nýlega tekið við embætti og sætti harðri gagnrýni kaupmanna.
Hinn 9. Ágúst 1973 birtist þessi grein í Tímanum um lokun Austurstrætis, en undir hana ritar „TK“:
Nýi borgarstjórinn er í örvæntingu að reyna að vekja á sér athygli með því að brjóta upp á einhverju nýju. Skyndileg ákvörðun um lokun Austurstrætis fyrir bílaumferð er sprottin af slíku. — gömul hugmynd, sem allt í einu er dregin fram og ákveðið að gera að veruleika, þótt hliðaraðgerðir og nauðsynlegan undirbúning skorti. Minnir þetta á skessuna úr ævintýrinu „Búkollu“, sem gaf sér ekki tíma til að bora nægilega vítt gat á fjallið, og sat svo föst í gatinu.
Ónógur undirbúningur
Lokun Austurstrætis nú var ekki tímabær enda kom sú skoðun fram í borgarráði í bókunum tveggja borgarráðsmanna. Kristján Benediktsson sagði i bókun sinni m.a., að hann teldi þetta mál ekki nægilega undirbúið með tilliti til umferðarinnar.
Bílastæðin
Margt mælir á móti því, að ráðast í þessa tilraun núna.
1. Búið var að ákveða í borgarráði fyrr í sumar, að ljúka á þessu sumri lagningu Kalkofnsvegar frá Lækjartorgi að Skúlagötu. Þessari framkvæmd verður að fresta vegna hinnar skyndilegu ákvörðunar um lokun Austurstrætis.
2. Bílastæðavandamálið í miðborginni mun stóraukast. Seðlabankabyggingin teppir fjölmörg bílastæði. Til viðbótar mun lokun Austurstrætis hafa í för með sér að nokkuð á annað hundrað bílastæðum i sjálfum miðbænum verður lokað sem langtímastæðum.
3. Ekkert hefur verið gert til að vega upp á móti fækkun bílastæðanna. Meira að segja hefur ekki verið hugsað fyrir, að gera akbraut upp á rampinn við tollstöövarbygginguna, sem var þó algjör byrjunarframkvæmd til undirbúnings lokunar Austurstrætis. Fyrst núna er byrjað að undirbúa þá framkvæmd.
4. Tilraun með lokun Austurstrætis hefði átt að gera fyrr á sumri en ekki á haustmánuðum.
Bankastrætisumferðin?
5. Engar kannanir hafa verið gerðar til að gera sér grein fyrir, hvert hinir fjögur til fimm hundruð bílar, sem á hverjum klukkutíma aka niður Bankastrætið, munu fara, til að komast leiðar sinnar, eftir að Austurstrætinu hefur verið lokað. Þeir eiga hreint og beint að finna sér farveg eins og vatnið. Gallinn er bara sá, að valkostirnir eru ekki margir.
6. Umferð um Kirkjustrætið mun stóraukast, þótt fram til þessa hafi verið talið æskilegt að friða það svæði sem mest.
7. Ekki er enn búið að gera sér grein fyrir, hvernig strætisvögnunum verður komið gegnum miðborgina.
Lokun Austurstrætis var til umfjöllunar í „Horninu“ 17. október 1973, en Hornið var fastur liður í Alþýðublaðinu á þeim árum:
„Ég er alveg á móti þvi að loka Austurstræti fyrir bílaumferð,“ sagði ungur maður, sem hringdi til Hornsins. „Í fyrsta lagi var akstur bíla aldrei til vandræða þarna í Austurstræti, þvert á móti var alltaf líf og f jör i götunni eftir að bíó voru búin á kvöldin. Þá ók fólk „rúntinn“ og aðrir gengu. Þetta var eins konar samkomustaður, þar sem fólk hittist, jafnvel þótt flestir væru reyndar akandi. Nú orðið hættir fullorðið fólk sér ekki lengur um götuna eftir að kvölda tekur, því þar hefst aðallega við hópur unglinga, sem er kannski með aðsúg að eldra fólki. Í öðru lagi, þá voru engar ráðstafanir gerðar þegar götunni var lokað. Það var ekkert gert til að auka bílastæði, eða gera fólki á einhvern hátt auðvelt að komast að götunni, ef það kemur akandi niður í bæ. Það er ekki hægt að loka svona fjölfarinni umferðargötu einhliða. Það verður að gera einhverjar hliðarráðstafanir. Í þriðja lagi vill ég benda kaupmönnum i Austurstræti á það, að síðan götunni var lokað er ég steinhættur að versla þar, og það sama á við um margt fólk sem ég þekki. Það er orðið of mikið fyrirtæki að komast að í Austurstræti. Og eftir þvi sem frá líður mun fólk bara venja sig við það að gera sin innkaup i úthverfum eða öðrum verslunargötum.“
Í Vísi, 3. nóvember sama ár var eftirfarandi haft eftir kaupmanni við Austurstræti:
,,Það stakk mig undarlega, þegar ég las, að tilraunin með lokun Austurstrætis fyrir bílaumferð hefði verið framlengd. Ég man það nefnilega glögglega, þegar kaupmenn þarna í götunni og næsta nágrenni vöruðu við því, að lokun götunnar fyrir bílaumferð gæti steypt þeim í gjaldþrot, að þá lofaði borgarstjóri Reykjavíkur því, að haft skyldi samráð við kaupmenn i miðbænum. Ég er þá að velta því fyrir mér, hvers vegna ekkert samráð var haft við okkur kaupmennina í miðbænum, áður en tilraunartíminn var framlengdur.
Eftir standa enn i huga manns tilsvör kaupmanna eftir reynslu fyrstu daganna, þegar þeir fundu, að umferðin hafði sízt minnkað, jafnvel heldur aukizt hjá þeim. Þannig var þó aðeins fyrstu dagana. Þegar nýjabrumið er núna horfið af þessu, þá hefur þetta dregizt saman aftur, og áður en þetta fyrra reynslutímabil var útrunnið, gátu kaupmenn fundið mikinn mun á því, hvað dregið hafði úr traffíkinni hjá þeim. Hún var orðin langtum minni en fyrir breytinguna.
Það blasir við kaupmönnum mörgum, að þeir verði að loka, haldi svo áfram. Þar með er grundvöllurinn brostinn undan því að loka fyrir bílaumferð til þess að gera gangandi hægara um vik.“
Og 2. nóvember sendu tuttugu kaupmenn í Austurstræti frá sér ályktun:
Um 20 kaupmenn i Austurstræti hafa skrifað undir skjal til borgaryfirvalda Reykjavikur, þar sem fram kemur, að veruleg óánægja er með lokun Austurstrætis, eins og hún hefur verið framkvæmd.
Kaupmönnum er ljóst, að um tilraun er að ræða, en þeir telja þegar komið fram, að ótímabært er að loka þessari aðalverslunargötu borgarinnar til frambúðar, nema vandamálið með bílastæðin verði tekin til rækilegrar endurskoðunar og fram úr því ráðið með varanlegum og viðunandi hætti.
Þá telja kaupmenn, að lokun götunnar fyrir bílaumferð krefjist stórlega aukinnar löggæslu frá því sem nú er. Er ekki farið í launkofa með, að hún þurfi að beinast að því utangarðsfólki og óaldarlýð sem hefur í sívaxandi mæli sett svip sinn á alla umferð í Austurstræti síðan það var gert að göngugötu
„Kaupmaður i Austurstræti“ skrifaði svo í Alþýðublaðið 2. nóvember 1973:
„Borgarstjóri hefur sagt opinberlega, að um lokun Austurstrætis verði ,,að sjálfsögðu“ haft „samráð við þá sem hagsmuna hafa að gæta i Austurstræti“. Það eru býsna margir sem stunda atvinnurekstur við götuna og hafa þar hagsmuna að gæta, en ekki einn einasti kaupmaður hefur verið spurður né verið haft samráð við vegna tilraunarinnar, ef undan er skilin kaffiveislan fræga í Höfða á sínum tíma. Þangað voru allir kaupmenn við götuna boðaðir eftir að þeir höfðu sent borgarstjóra harðorð mótmæli, en undir mótmælin skrifuðu 23 kaupmenn, en þeir óttuðust þá þegar, að slík lokun myndi hafa samdrátt i viðskiptum í för með sér og hefur sá ótti ekki reynst ástæðulaus.
Í umræddu kaffiboði voru mótmælin þögguð niður, öllu fögru lofað, og þá vantaði ekki orðin samvinnu og samráð. Þar var það fyrirheit gefið að tilraunin yrði aðeins tveir mánuðir og síðan yrði gatan opnuð. Nú eru þessir tveir mánuðir liðnir og vel það, við kaupmennina hefur ekki verið talað, og þegjandi og hljóðalaust samþykkja borgaryfirvöld framlengingu á lokun götunnar án alls samráðs, vitandi það að umferð og verslun í götunni hefur minnkað.
Það eru eindregin tilmæli kaupmanna að borgarstjóri gefi skýringu á orsökum þeirrar samþykktar borgarráðs að halda lokun götunnar áfram án þess svo mikið sem að ræða við þá kaupmenn sem við götuna eru, og hvar eru þessi sjálfsögðu samráð sem borgarstjóri talar um? Það væri fróðlegt að fá skýr og greinargóð svör við þessari spurningu því hún skiptir miklu máli fyrir viðkomandi kaupmenn, sem telja að borgaryfirvöld hafi sýnt þeim fádæma lítilsvirðingu. Borgarstjóri verður að gera sér grein fyrir þvi að tilraunin hefur mistekist. Í sliku veðurfari sem við eigum við að búa að vetrarlagi er útilokað að láta sér detta þá fásinnu i hug að gatan geti verið göngugata, jafnvel þó þar séu bekkir fyrir fólk til að sitja á.
Blómakerin (síldarstamparnir) svörtu sem dreift er um alla götuna gera hana ömurlega og þjóna alls ekki þeim tilgangi sem ætlast var til í upphafi. Þau bera ekki vott um smekkvísi, og þeir sem leið hafa átt um götuna að morgni dags hafa mátt horfa á þessa stampa á hvolfi, eða trén i þeim rifin upp með rótum af völdum drykkjulýðs sem sest hefur að í götunni að kvöld- og næturlagi öðrum vegfarendum til ama.
Fer varla hjá því að borgarstjóri hafi veitt þessu athygli þegar hann hefur mætt til starfa að morgni dags. Þá eru listaverkin í Pósthússtræti alls engin prýði, því þau bæta aðeins við tómleikann og kuldann sem yfir hinu lokaða Austurstræti hvílir, og eru táknræn merki um misheppnaða tilraun borgarstjóra til að fegra miðborgina eins og hann orðaði það i upphafi. Með lokun götunnar er stigið spor afturábak i borgarmenningunni.
Borgarstjóri þarf ekki að vænta þess að hann afli sér atkvæða kaupmanna í Austurstræti við komandi borgarstjórnarkosningar sem munu verða þær tvísýnustu og örlagaríkustu sem hér hafa farið fram. Það má vera að hann afli sér atkvæða þess drykkjulýðs sem nú hertekur götuna og og annarra sem ekki hafa þar hagsmuna að gæta.
En hafi borgarstjóri áhuga á þvi að eiga samvinnu við kaupmenn og vilji hann eitthvað fyrir þá gera svo sem að hafa við þá samráð eins og lofað var í upphafi þá er kominn tími til að svo verði, ef það er þá ekki ætlunin að koma óllum kaupmönnum við götuna fyrir kattarnef, en að þvi stefnir verði gatan ekki opnuð hið bráðasta.“
Og annar kaupamaður ritaði grein í Tímann 27. nóvember sama ár:
UMMÆLI borgarstjórans í Reykjavík í Morgunblaðinu 17. nóvember þess efnis, að framkvæmdum við breytingu á Austurstræti sé tvískipt vegna vinnuhagræðingar, hafa vakið mikla furðu og reiði kaupmanna, svo og þeirra, er hagsmuna hafa að gæta við götuna.
Borgarstjóri er ef til vill búinn að gleyma þeim kröfum, sem bornar voru fram af hálfu kaupmanna um tafarlausa opnun götunnar, þegar tveggja mánaða tilrauninni átti að vera lokið, svo og þeim svikum við kaupmenn, þegar hann lét borgarstjórn samþykkja áframhaldandi lokun götunnar án samráðs við kaupmenn, eins og lofað hafði verið. Það kemur því kaupmönnum, spánskt fyrir sjónir, að borgarstjóri skuli leyfa sér að segja, að samþykkt borgarráðs fyrir opnun helmings götunnar sé vegna vinnuhagræðingar.
Því miður fer borgarstjóri með staðlausa stafi, og er greinilegt að hin mikla óánægja kaupmanna má ekki koma fram, né heldur sú staðreynd, að það var vegna þrýstings frá kaupmönnum, að samþykkt var að opna vestur helming götunnar í trausti þess að þeir yrðu ánægðir. Kaupmenn rennir grun í, að með þessu sé verið að veita þeim gálgafrest fram yfir kosningar.
Kaupmenn hafa aldrei óskað eftir lokun Austurstrætis, sem um áraraðir hefur verið aðal verzlunar- og umferðargata borgarinnar, því þeir gera sér ljóst, að með lokun hennar geta eðlileg viðskipti ekki farið fram, enda fór að bera á verulegum samdrætti, þegar er götunni var lokað. Þetta hafa borgaryfirvöld neyðzt til að viðurkenna, en samt á að leggja í milljóna framkvæmdir við austurhluta götunnar strax eftir áramót, og á þeim að vera lokið í byrjun maí, algjörlega í trássi við vilja kaupmanna, svo og hins almenna skattborgara.
Borgarstjóri verður að gera sér það ljóst að þessar framkvæmdir og það rask, sem á þessu svæði verður, getur haft örlagaríkar afleiðingar fyrir þau fyrirtæki, sem eru á þeim kafla, sem áætlað er að breyta. Borgarstjóri verður einnig að gera sér ljóst, að kaupmenn eru allir á móti umræddri breytingu. Þeir voru hreint og beint kúgaðir til að fallast á tilraunalokun götunnar í dýrlegri veizlu, sem borgarstjóri efndi til, þegar hann sá að það voru ljón á veginum.
Í hinni eftirminnilegu veizlu fór borgarstjóri eins og köttur i kringum heitan graut, hugsjón hans varð að komast i framkvæmd, sína hugsjón mat hann meira heldur en tilveru kaupmanna, sem muna allir eftir loforðum hans um opnun götunnar eftir tvo mánuði. En kaupmenn eiga einnig sínar hugsjónir, sem eru þær, að eðlilegt viðskiptalíf megi blómgast á ný í Austurstræti, og það er þessi hugsjón, sem væntanlega á eftir að verða annarlegum sjónarmiðum borgarstjóra yfirsterkari.
Eftir að tveggja mánaða tilrauninni lauk 12. október, áttu kaupmenn von á þvi, að staðið yrði við loforðin um opnun götunnar, en þá var áframhaldandi lokun ákveðin, án þess að nein samráð væru höfð við þá, er hagsmuna höfðu að gæta. Eins og vænta mátti, þykknaði í kaupmönnum, og þeir gengu þegar á fund borgarstjóra og minntu hann á, að tilrauninni væri lokið og að honum bæri að standa við loforð sitt um að opna götuna. Borgarstjóri var ekki tilbúinn til slíks og benti kaupmönnum á, að skoðanakannanir hefðu leitt i ljós, að almenningur vildi áframhaldandi lokun. Við athugun hefur síðan komið i ljós, að umræddar skoðanakannanir hafa ekki verið gerðar á hlutlausan hátt af hlutlausum aðilum. Hafa blaðamenn eins dagblaðsins verið iðnir við að birta svör þeirra, sem voru lokuninni hlynntir og höfðu engra hagsmuna að gæta. Svör þeirra, sem eru á móti lokun götunnar, en þeir voru miklu fleiri, hafa farið beint í ruslafötu blaðsins. Fer ekki hjá því, að slík vinnubrögð séu harðlega fordæmd, en með þeim er verið að blekkja kaupmenn, sem manna bezt hafa getað dæmt um hina ótímabæru lokun Austurstrætis og slæmar afleiðingar hennar.
Til að leggja áherzlu á kröfur sinar hófu kaupmenn undirskriftasöfnun, þar sem allir, sem hagsmuna höfðu að gæta, skrifuðu undir áskorun um tafarlausa opnun Austurstrætis. Var þessi listi afhentur borgarstjóra, sem þá minntist þess að hafa gefið loforð og fyrirheit i veizlunni i Höfða. Borgarstjóri telur sig vera fulltrúa frjáls framtaks og frjálsrar verzlunar, en með háttalagi sinu gagnvart kaupmönnum eru menn farnir að efast. Þegar borgarstjóra varð ljós sú staðreynd, að hann yrði að taka tillit til krafna kaupmanna, lagði hann málið fyrir borgarstjórn, og mun það hafa verið honum erfiður biti að kyngja. Eitthvað vafðist málið fyrir borgarstjórn, en að lokum var fallizt á að opna vesturhelming götunnar, svo og að vinna við eystri helminginn hæfist eftir áramót og sá hluti hellulagður, þrátt fyrir andstöðu kaupmanna, og er þar komin skýringin á vinnuhagræðingu borgarstjóra. Með þessum framkvæmdum yrði kaupmönnum sýnd fádæma ósvífni og litilsvirðing af flokki sem hefur talið sig vera málsvara frjálsrar verzlunar og samkeppni. Þess mætti borgarstjóri minnast, og hann verður að gera sér grein fyrir því, að framkoma hans gagnvart kaupmönnum er ekki til þess fallin að auka álit þeirra á flokki hans, sem þeir hafa stutt um áraraðir.
Aldrei hefur þörfin fyrir samstöðu kaupmanna verið jafnmikil og nú, því hér er um beina árás á hagsmuni kaupmanna i miðborg Reykjavikur að ræða, árás, sem á engan sinn líka i hinum siðmenntaða heimi. Með þessari árás á kaupmenn vinnur borgarstjóri markvisst að þvi að einangra miðborg Reykjavikur frá eðlilegum viðskiptum, því það eru fleiri stræti en Austurstræti, sem ætlunin er að loka. Á móti slíku verða allir kaupmenn að snúast, áður en þeir hljóta sömu meðferð og þeir, er stunda atvinnurekstur í Austurstræti, og þeir skulu hafa það hugfast að láta ekki blekkjast af gylliboðum og loforðum.
Nú er um það bil vika síðan borgaryfirvöld samþykktu opnun vesturhluta Austurstrætis. Eitthvað virðist þessi opnun ætla að dragast á langinn, en loforð hafði verið gefið kaupmönnum um, að gatan yrði opnuð, um leið og borgarstjórn hefði veitt samþykki sitt, sem var 15. nóvember. Að vonum undrast kaupmenn hvað valdi þessum seinagangi. Eða á ef til vill að svíkja þá enn einu sinni?
Því miður áttu spár kaupmanna eftir að koma fram og lokun Austurstrætis varð banabiti verslunar við götuna og í Kvosinni allri.