Hinn 14. mars 2002 birtist eftirfarandi grein í Morgunblaðinu, þar sem Einar Benediktsson sendiherra fjallar um hnignun miðborgarinnar:
ÞEIM, sem eiga miðborg Reykjavíkur að vinnustað, hefur farið fækkandi og fyrir því eru sagðar eðlilegar ástæður. Verslanir og skrifstofur hafi betra rými annars staðar, svo ekki sé nú minnst á bílastæðin. Þetta átti þó ekki eftir að ske þannig að kvosin yrði með öllu afskipt af mannlífinu. Svo sannarlega ekki. Sú byggðarþróun varð hins vegar hin furðulegasta, því segja má að okkar gamla, góða Reykjavík hafi orðið að tvífara: Dagfara og Náttfara eða einhvers konar borgarlegum Dr. Jekyll og Mr. Hyde.
Sú þróun, sem hér um ræðir, gekk snögglega yfir og er okkur sem þá dvöldumst erlendis kannske vorkunn að hafa ekki áttað okkur á þessu. Ekki svo að skilja að borgirnar austan hafs og vestan hafi ekki breyst og svo sannarlega ekki að öllu til batnaðar. En það hefur þó yfirleitt verið stefnan, sérstaklega varðandi höfuðborgir, að í kjarna þeirra sé hlúð að öðru en opinberri stjórnsýslu. Sé viðskiptalífið og búseta að færast til, hefur skemmtanlíf ekki eitt verið láta taka við. Ég hef það fyrir satt að Nýhöfnin í Kaupmannahöfn hafi verið hreinsuð af sínum fyrri ósóma en þá skeður það að sitthvað af því sama skýtur upp kolli eins og gorkúlur á haug hér í Austurstræti – Aðalstræti og aðliggjandi götum. Veitingastaðir, drykkjukrár og súlnatraktéringarnar í 101 Reykjavík eru vissulega í alþjóðlegu hámarki hvað snertir fjölda og þéttleika. Ætli að krár séu opnar fram á morgun víðar á Vesturlöndum en hér? Máske á sólarströndunum. Þarna verður að ætla að sé miðstöð umfangsmikillar fíkniefnasölu og vaxandi vændis. Og næturútgáfunni af Reykjavík hefur fylgt vaxandi öryggisleysi vegna aukins ofbeldis og líkamsárása.
Vissulega er það satt og rétt að menningarstarfseminni hér hefur fleygt fram. Og ekki ber að gleyma því að Reykjavík hefur upp á að bjóða frábæra matarstaði. Einnig þar er um mikla framför að ræða. En miðborgin hefur farið úr böndunum sem höfuðborg Íslands. Ég hitti nýlega í Bandaríkjunum ungt amerískt par, sem hingað kom í skemmtiferð í fyrrasumar. Þau höfðu allt gott um Reykjavík að segja nema að sumt það, sem við hefðum í næstu grennd við þjóðþing okkar, hina gömlu kirkju og æðstu stjórn landsins, ætti heima einhvers annars staðar. Því miður virðast sumir haldnir þeirri skoðun að okkur sé sérlegur ávinningur af næturlífinu vegna ferðaþjónustunnar. Það dreg ég stórlega í efa og tel reyndar að reynsla mín af landkynningarstarfsemi á sendiráðum bendi til þess að sóknarfæri séu öll önnur en að halda hér uppi, og einmitt í kjarna gömlu borgarinnar, öflugri aðstöðu til nætursvalls. Hér þarf breytingar við. Er þá ekki líka tími til kominn að R-listinn fái tækifæri til að hvíla sig um sinn á stjórn Reykjavíkur, ekki hvað síst miðbæjarmálunum?