Á lóðinni Laugavegur 76 er myndarlegt þrílyft dökklitað steinhús sem reist var árið 1928. Þórarinn Kjartansson reisti húsið og rak þar Gúmmívinnustofuna allt til ársins 1941, en það ár seldi hann fyrirtækið og stofnsetti fataverslun í húsinu. Þórarinn réð til sín saumakonu sem saumaði herrabuxur og einnig stytti hún skálmar eða lengdi, allt eftir þörfum hvers og eins viðskiptavinar og oft á meðan beðið var. Hérna var markað upphaf Vinnufatabúðarinnar, sem rekin hefur verið í húsinu alla tíð síðan.
Þórarinn lést 26. desember 1952. Eftir lát hans sáu Guðrún og Níels sonur þeirra um reksturinn. Níels lést ungur af slysförum og tók þá Daníel bróðir hans við ásamt móður sinni þar til Guðrún lést, 1. febrúar 1967.
Vinnufatabúðin hefur alla tíð verið í eigu afkomenda Þórarins og Guðrúnar. Um árabil ráku bræðurnir Þorgeir og Daníel Daníelssynir verslunina saman. Árið 1997 tóku Þorgeir og kona hans við versluninni, en Daníel rekur Gallabuxnabúðina í Kringlunni.
Það er sérstakt og skemmtilegt hvað húsnæði Vinnufatabúðarinnar hefur lítið verið breytt frá því að Þórarinn Kjartansson var þar. Að vísu hefur plássið verið stækkað með því að taka vegg sem var á milli Vinnufatabúðarinnar og sjoppunnar, einnig hefur verið stækkað þar inn sem vinnu- og geymsluherbergi voru. Fyrir þremur árum voru upphaflegar innréttingar teknar og settar léttari sem svipar að útliti til þeirra innréttinga sem voru.