Guðlaugur Bergmann og Haukur Björnsson í Karnabæ voru í ýtarlegu viðtali í 2. tbl. Frjálsrar verslunar 1982. Þar bar margt á góma, til að mynda miðborgarmálin, en Karnabær rak þá nokkrar verslanir í miðborginni. Grípum niður í viðtalið:
„Hér er allt steindautt eftir klukkan 6 og allar helgar“, segir Gulli og rifjar upp góðar og yljandi minningar frá því að hann var á „rúntinum“, í iðandi mannlífi Austurstrætis fyrir svo sem 25 árum. Þeir Karnabæjarbændur benda á að ekkert hafi verið hugsað fyrír framtíðarþróun þessa borgarhluta. Brýnustu aðgerðir til aö rétta hlut miðbæjarins telja þeir vera: Stórmarkað, meira svigrúm húseigenda til að bæta við rými til aukinna athafna, úrlausnir í bílastæðamálum þannig að fólk eigi stuttar gönguleiðir að verslunum, frjáls opnunartími til að miðbæjarverslanir geti haft opið t.d. á fimmtudagskvöldum og til 6 á laugardögum.
Þeir hafa sjálfir haft forgöngu um að gera umhverfi miðbæjarins skemmtilegt og vinalegt. „Inn-stræti“ er upphitaður gangur vestan Karnabæjarverslana að veitingastaðnum Nessý. Athafnamenn tóku sig saman um þetta verkefni og vilja gera meira. Þeir vilja fá skilyrði til þess.
„Vinstrimenn í borgarstjórn hafa sennilega ekkert á móti því að eitthvað gerist til úrbóta hér í miðbænum. Þeir verða bara að vera fyrirfram sannfærðir um að enginn græði á breytingum, sem kynnu að horfa til bóta“, segir Gulli Bergmann og endurtekur nokkrum sinnum að það sé bisness og aftur bisness, sem alltaf hafi verið og verði hvatinn að mestu breytingum og flestum umbótum fyrir fólk á öllum tímum.