Guðlaugur Bergmann, kaupmaður í Karnabæ, var aðal hvatamaður að stofnun samtakanna Gamli miðbærinn, sem komið var á laggirnar laust fyrir jólin 1985. Í febrúar árið eftir átti blaðamaður Morgunblaðsins viðtal við Guðlaug, en viðtalið hófst á þessum orðum:
„Mér finnst það í rauninni kraftaverk að okkur skuli hafa tekist að koma á fót samtökunum Gamli miðbærinn. Þetta gerðist svo ótrúlega hratt og með nánast engum fyrirvara. Sjálfur lét ég ýmis dagleg störf á hilluna meðan á þessu stóð, og ég veit að svo var um ýmsa aðra hérna í gamla miðbænum,“ sagði Guðlaugur Bergmann, driffjöðrin í stofnun samtakanna Gamli miðbærinn.
— En hvernig varð hugmyndin til?
„Það gerðist raunar þegar ég var að undirrita samskiptasamning fyrir hönd Karnabæjar í Mollinu í Kringlunni. Þá rann upp fyrir mér ljós, ég skynjaði að Gamli miðbærinn má ekki deyja út, hann þarf að vernda. Nú, félagið var svo stofnað á fjölmennum fundi, það var fullt út úr dyrum á Borginni það kvöld. Viku seinna var búið að ráða framkvæmdastjóra og koma á fót skrifstofu. Áhuginn hjá fólki var gífurlega smitandi og efldi okkur til dáða. Menn voru að vonum uppteknir, skammt til jóla, en engu að síður var okkur hvarvetna vel tekið og margir lögðu hönd á plóginn. Uppákomur alls konar voru skipulagðar í Gamla miðbænum, sem áreiðanlega hefur aldrei verið með hressara bragði en nú.“
— En hvernig var staðið að starfinu í byrjun?
„Ég fékk tvo starfskrafta í mínu fyrirtæki til að hringja í fyrirtæki og húseigendur á svæðinu. Þær settu saman skrá yfir þá aðila, sem hafa hagsmuni í gamla miðbænum, síðan kom Sigurður Kolbeinsson til starfa hjá okkur og hefur meira en nóg að gera.“
— Hvað um afskipti af umferðarmálum í þessum bæjarhluta?
„Við fórum strax að skipta okkur af þeim málum. Ég held satt að segja að okkur hafi tekist að koma í veg fyrir að Laugavegi yrði lokað fyrir bílaumferð, að strætisvögnum undanskildum, í desember. Ég tel að okkur beri að skipta okkur af þessum málum í auknum mæli. Þannig eru takmarkanir á beygjum inn á Laugaveg að flestra áliti allt of miklar. Við viljum breytingar á þessum hömlum. Með þessum takmörkunum er bara verið að auka á hættuna í íbúðahverfunum upp af Laugavegi, þar eykst umferðin stórlega.“
— Stærstu málin í dag?
„Við þurfum að láta heyra í okkur hérna í gamla miðbænum, það viljum við gera með blaðaútgáfu. Þá vinnum við að útgáfu uppsláttarbókar, sem mun verða góður gripur fyrir aðila að samtökunum. Og kannski það sem ég tel lang brýnast, — það er að auka lífið í gamla miðbænum á laugardögum. Þú sérð að það er stefna stórmarkaðanna að hafa opið til kl. 4 á laugardögum. Hvers vegna skyldu þá verslanirnar í þessum stærsta stórmarkaði landsins, gamla miðbænum, hafa lokað? Ef við viljum hafa opið eftir hentugleikum, missum við einfaldlega af viðskiptunum. Við í Gamla miðbænum þröngvum auðvitað ekki neinum til að hafa opið, það er ekki okkar verkefni. Hinsvegar ráðleggjum við mönnum að hafa opið til 4. Ég spái því að margir muni komast að raun um að það borgar sig vel.“
— Nú er Gamli miðbærinn nokkuð stórt hverfi, hvernig gengur að samræma sjónarmiðin milli aðila sem eru langt frá hvor öðrum?
„Það gengur vel. Gamli miðbærinn stórt svæði. Það ættu íslendingar að vita, sem hafa gengið um Oxford-stræti og Strikið í Kaupmannahöfn. Okkar starf gengur vel, vegna þess að við erum einskonar hjálparfélag, sem á að lífga við, vera hvati góðra hluta hér í hverfinu. Menn skuli ekki gleyma að Gamli miðbærinn er miðstöð allra landsmanna. Við hann eigum við öll skyldur.“