Árið 1982 birtist ýtarleg fréttaskýring í Frjálsri verslun um framtíð verslunar í miðborg Reykjavíkur og spurt var í fyrirsögn hvort miðborgin væri lífs eða liðin. Rætt var við ýmsa kaupmenn og þeir inntir álits á þessum málum. Meðal viðmælenda var Ebba Hvannberg í skóverslun Hvannbergsbræðra.
Blaðamaður Frjálsrar verslunar (FV) spurði hana í upphafi samtalsins:
FV — Telurðu að Laugavegurinn eigi framtíð fyrir sér sem aðalverslunargata Reykjavíkur?
— Já alveg tvímælalaust. Ég er ekki hrifin af áætlunum sem uppi hafa verið um að koma upp nýjum miðbæ í Kringlumýrinni. Ég held það sé ekki skynsamlegt að dreifa þessum fáu verslunum sem grundvöllur er fyrir á marga staði. Með því móti yrði hvergi almennilegur miðbær.
FV — En heldur þú að Laugavegurinn geti í framtíðinni tekið við aukinni umferð, eða ert þú hlynnt því að loka honum fyrir bílaumferð?
— Nei, ég vil ekki loka Laugaveginum fyrir bílaumferð, a.m.k. ekki í náinni framtíð. Ég tel að Laugavegurinn anni á fullnægjandi hátt þeirri bílaumferð sem um hann fer í dag. Ef bílaumferð yrði bönnuð, myndi það t.d. valda öldruðu fólki og fötluðum miklum vandræðum og myndi gera þeim erfiðara um vik að versla hér við Laugaveginn. Það þyrfti samt að huga betur að gangandi vegfarendum, en gert hefur verið, og er t.d. nauðsynlegt að gera við gangstéttarnar, en þær eru orðnar mjög illa farnar. Einnig mætti breikka þær sumstaðar.
FV — Hvað með skort á bílastæðum?
— Það er tvímælalaust skortur á bílastæðum og því má alls ekki taka stæðin hér með fram Laugaveginum, heldur verður að leysa þau mál á annan hátt.