„Laugavegurinn er svo formfull og laðandi gata, að hreinasta yndi er að ganga hana“, sagði Jóhannes Kjarval í grein í Morgunblaðinu 1923.
Árið 1886 var ákveðið að auðvelda ferðir inn í Þvottalaugarnar og þá var hafist handa við framlengja veginn upp Bakarabrekkuna, en sú gata fékk þá nafnið Bankastræti og var kennd við afgreiðslu Landsbankans, sem þá var til húsa þar sem nú er snyrtivöruverslunin Stella.
Laugavegurinn varð brátt aðalumferðarbrautin austur úr bænum og síðar var hann tengdur nýjum brúm við Elliðaár. Byggð jókst mjög við Laugaveginn á næstu árum og áratugum, en árið 1900 voru íbúar þar 700 talsins, um 1930 voru þeir orðnir tæplega 3000, en gatan var framan af síðustu öld langfjölmennasta gata Reykjavíkur.
Verslunum fjölgaði mjög við Laugaveginn á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar og brátt var gatan orðin aðalverslunargata borgarinnar, sem hún hefur verið alla tíð síðan.