Fálkinn rekur upphaf sitt til ársins 1904, er Ólafur Magnússon, trésmiður, setti upp reiðhjólaverkstæði við Skólavörðustíginn í Reykjavík. Viðskiptin undu upp á sig og brátt hóf hann innflutning á varahlutum í reiðhjól og ekki leið að löngu þar til hann hóf að flytja inn hjólhesta. Snemma flutti Ólafur starfsemina á Laugaveg og árið 1924 festi hann kaup á ,,Hjólhestaverksmiðjunni Fálkanum“ og breytti nafni fyrirtækisins í „Reiðhjólaverksmiðjuna Fálkann“. Upp frá því rak Ólafur alla starfsemi sína undir nafni Fálkans og fyrr en varði var fyrirtækið var fyrirtækið komið á ótroðnar brautir. Árið 1924 hófst innflutningur hljómplatna og fjórum árum síðar var gerður samningur við Columbia hljómplötufyrirtækið. Í byrjun fjórða áratugarins voru teknar upp rúmlega 150 íslenskar hljómplötur í tveimur áföngum og seldust sumar þeirra í allt að tvö þúsund eintökum.
Þá fengust snemma saumavélar í Fálkanum og árið 1932 fékk fyrirtækið umboð fyrir Necchi-saumavélar, sem voru meðal mest seldu saumavéla hér á landi næstu áratugina. Árið 1947 seldust, svo dæmi sé tekið, hvorki fleiri né færri en tvö þúsund Necchi-saumavélar hérlendis.
Árið 1928 fékk Fálkinn umboð fyrir Dodge bifreiðar og á næstu fjórum árum voru fluttar inn um það bil áttatíu bifreiöar þeirrar tegundar, en fyrirtækið varð að hætta innflutning bifreiða þegar einkasölu ríkisins á bifreiðum var komið á fót 1932.
Í byrjun síðari heimstyrjaldar hófst reiðhjólaframleiðsla Fálkans, en þá hafði að mestu verið tekið fyrir innflutning til landsins. Þessi framleiðsla stóð yfir á stríðs- og haftatímabilinu, allt til ársins 1954, en þá opnaðist aftur innflutningur til landsins. Á þessum 14 árum voru framleidd um 18 þúsund reiðhjól undir merki Fálkans.
Árið 1948 var rekstrarformi fyrirtækisins breytt í hlutafélag en fram að þeim tíma hafði það verið einstaklingsfyrirtæki i eigu Ólafs Magnússonar. Um þetta leyti voru starfsmenn fyrirtækisins um tuttugu talsins og sama ár flutti fyrirtækið í nýtt húsnæði, að Laugavegi 24, en á þeirri lóð hafði starfsemi Fálkans verið, allt frá árinu 1910.
Véladeild Fálkans var stofnuð árið 1956 og þar var lengi að finna landsins mesta úrval af legum, reimum, hjöruliðskrossum og ásþéttum, í allar gerðir véla og farartækja.
Á 7. áratugnum efldist fyrirtækið mjög og jókst starfsemin til muna. Þrengsli í húsnæðinu á Laugaveginum stóðu fyrirtækinu mjög fyrir þrifum og því var ráðist í byggingu nýs húsnæðis við Suðurlandsbraut. Alls störfuðu yfir fimmtíu starfsmenn hjá Fálkanum þegar mest var.
Heimilistækjadeild Fálkans var stofnuð árið 1971 en þá hafði fyrirtækið fengið umboð fyrir hin heimsfrægu Hoover heimilistæki. Síðan bættust margar gerðir heimilistækja í hópinn auk hljómflutningstækja.
Ólafur Magnússon lést árið 1955, en hann var forstjóri fyrirtækisins allt til dauðadags. Þá tók sonur hans, Haraldur, við starfi föður síns, en hann hafði unnið við fyrirtækið frá árinu 1920 og verið framkvæmdastjóri frá 1948. Árið 1964 urðu bræður Haraldar, þeir Bragi og Sigurður, forstjórar ásamt honum, en Haraldur lét af störfum, sökum aldurs, árið 1974. Bragi lést árið 1975 en Sigurður árið 1976.
Í húsi Fálkans við Laugaveg 24 var síðar rekin skóverslun Hvannbergsbræðra. Gunnar Guðjónsson gleraugnakaupmaður keypti verslunarhúsnæðið árið 1981 og frá árinu 1986 hefur Gleraugnamiðstöðin verið þar til húsa, ásamt fleiri fyrirtækjum.
Heimild: Frjáls verslun, 11. tbl. 1979.