Greinargerð með undirskriftum 48 kaupmanna og fasteignaeigenda gegn öllum frekari áformum um lokun Laugavegar fyrir bílaumferð, afhentar borgarstjóra 7. mars 2012
Undanfarin misseri og ár hafa nokkrir kjörnir fulltrúar Reykvíkinga barist fyrir lokun Laugavegar fyrir bílaumferð. Þessum áróðri hefur verið haldið til streitu þrátt fyrir að engin skynsamleg rök hnígi að því að rétt sé að loka fyrir umferð ökutækja um götuna.
Mjög hefur dregið úr verslun þá daga sem Laugavegi hefur verið lokað fyrir bílaumferð. Flestir viðskiptavinir verslana á þessu svæði koma líka gagngert til að versla í tilteknum búðum. Ef aðgengi að verslunum er skert hefur það óhjákvæmilega í för með sér að stór hluti viðskiptavina leitar annað. Þá er lokun götunnar aðför að ferðafrelsi aldraðra, öryrkja og annarra þeirra sem eiga erfitt með gang.
Lokun götunnar felur í sér breytingu á formi hennar, en verslunareigendur, aðrir rekstraraðilar og fasteignaeigendur hafa lögmætar væntingar til þess að ákveðið form götunnar haldist. Ákvarðanir um lokun götunnar hafa ekki verið bornar undir alla hlutaðeigandi og samþykkis meirihluta rekstraraðila hefur ekki verið aflað í þau skipti sem henni hefur verið lokað.
Tölur frá Ríkisskattstjóra um veltu á því svæði sem var lokað fyrir bílaumferð í fyrra sýna minni heildarveltu í júlímánuði 2011, samanber júlímánuð árið áður, þrátt fyrir einmuna veðurblíðu í sumar sem leið. En verslun er oft vart svipur hjá sjón þá daga sem gatan eru lokuð fyrir umferð.
Á nýliðinni Þorláksmessu var lokað fyrir umferð á Laugaveginum á hádegi á einum mesta verslunardegi ársins. Fyrir vikið dróst verslun stórlega saman þann daginn og var tap verslunareigenda stórfellt.
Stuðningsmenn lokunar benda á að víða erlendis þrífist göngugötur vel sem verslunargötur, en slíkt hefur ekki gefið góða raun hér á landi og eru ástæður þess vafalaust margar, svo sem óblíð veðrátta og mikil notkun einkabílsins. Austurstræti var án efa glæsilegasta verslunargata bæjarins lungann úr síðustu öld, en lokun götunnar drap svo að segja endanlega verslun við Austurstræti og nálægar götur, en fjöldi búða var áður í Hafnarstræti, Aðalstræti og fleiri götum þar í kring. Þetta ætti að vera mönnum víti til varnaðar.
Borgaryfirvöldum er mjög umhugað um menningarlíf og er það vel. En menningin í miðborginni er ekki hvað síst fólgin í versluninni sjálfri. Mikill sjónarsviptir er að gömlum stórveldum í verslun, en þó eru enn við Laugaveginn fáeinar verslanir sem rekja sögu sína aftur um eina öld. Það er líka merkilegt menningarfyrirbæri ungra sem aldinna Reykvíkinga að aka niður Laugaveginn og Austurstræti og virða fyrir sér vörur í útstillingargluggum verslana. Rúntinum er ógnað með lokunum borgaryfirvalda.
***
Borgaryfirvöld kynntu nýverið áform sín um stórhækkun bílastæðagjalda, en gert er ráð fyrir hækkunum um 67 til 88 prósent, auk þess sem til stendur að lengja mjög þann tíma sem skylt verður að greiða í gjaldmæla í miðborginni. Umræddar hækkanir á bílastæðagjöldum voru ákveðnar að því er virðist án samráðs við verslunareigendur og aðra hagsmunaaðila á svæðinu.
Markmiðið með gjaldmælum var frá upphafi að tryggja að bílastæðin losnuðu fljótt, svo viðskiptavinir ættu auðvelt með að leggja bílum sínum nærri verslunum. Ef gjaldmælar eiga á hinn bóginn að verða að féþúfu borgaryfirvalda er rétt að spyrja sig hvort borgaryfirvöld hyggist gæta jafnræðis og koma upp gjaldmælum á öðrum verslunarsvæðum í borgarlandinu.
Svo virðist sem ástæða þess að borgaryfirvöld ráðast nú í stórhækkun á bílastæðagjöldum sé almenn andúð þeirra á einkabílnum og markmiðið sé að fæla fólk frá því að koma á bílum í miðborgina. Slíkar aðgerðir geta ekki leitt til annars en minni verslunar. Viðskiptavinir vilja koma á sínum bíl og leggja honum nærri verslunum, ella fara þeir annað.
Á tímum almenns samdráttar í smásöluverslun væri rétt að borgaryfirvöld tækju höndum saman með kaupmönnum á svæðinu og stuðluðu að aukinni verslun. Liður í því gæti verið lækkun bílastæðagjalda og fjölgun stæða. Að sama skapi myndi það auðvelda aðgengi að verslunum að fella niður gjaldskyldu á svæðum nærri Laugavegi. Verslun við aðalverslunargötur borga og bæja Bretlands hefur átt mjög undir högg að sækja síðustu ár og misseri. Þar í landi hefur mikið verið rætt um leiðir til að auðvelda fólki að komast á bílum sínum í miðborgirnar, meðal annars með lækkun bílastæðagjalda og niðurfellingu gjaldskyldu í nágrenni aðalverslunargatna.
***
Með lokunum gatna er beinlínis vegið að lífsviðurværi hundruða kaupmanna, verslunarmanna, annarra rekstraraðila og starfsmanna fyrirtækja, auk þess sem virði verslunar- og skrifstofuhúsnæðis á svæðinu er stórlega skert.
Eftir því sem verslunum fækkar í miðborginni fjölgar öldurhúsum, en vera kann að borgaryfir-völd stefni að því að eingöngu slík starfsemi fái þrifist í miðborg Reykjavíkur. Líklega eru þó fleiri þeirrar skoðunar að í miðbæ Reykjavíkur eigi að geta þrifist verslun og til þess að svo megi vera til frambúðar verða borgaryfirvöld að láta af áformum sínum um lokun gatna og hætta öðrum skemmdarverkum gegn versluninni. Án blómlegra verslunarfyrirtækja er enginn miðborg.