Hérna að neðan er grein sem Haukur Þór Hauksson, kaupmaður og formaður Samtaka verslunarinnar, ritaði og birtist í Morgunblaðinu 12. október 2001.
Miðbæjarverslun í gíslingu borgaryfirvalda
BLÓMLEG og öflug miðborgarverslun er undirstaða fjölbreyttrar og skemmtilegrar miðborgar. Yfirleitt leggja borgaryfirvöld áherslu á að hafa áhrif á þróun miðborga. Markmiðið er að þróa miðborg þar sem skipulögð íbúðarbyggð og fjölbreytt atvinnustarfsemi, s.s. verslun, veitingastarfsemi og önnur þjónusta þrífst og styður hver aðra. Miðborgin er að öllu jöfnu hjarta borgarinnar og andlit útávið. Með þetta í huga verður að skoða samspil skipulags miðborgar, m.a. með tilliti til nýbygginga og endurnýjunar húsnæðis. Því miður er það svo að borgaryfirvöldum í Reykjavík hefur gjörsamlega mistekist í þessum efnum.
Því má halda fram að kaupmenn í miðbæ Reykjavíkur séu í gíslingu skipulagsyfirvalda. Það má nánast ekki hreyfa við neinu. Flest hús, eldri en hundrað ára, eru á verndarskrá, sem er í raun fáránlegt og á ekkert skylt við að eðlilega verndarstefnu. Fyrir tilstuðlan skipulagsyfirvalda má segja að fyrri kynslóðir hafi tekið núverandi miðbæjarkaupmenn í gíslingu. Kaupmenn og fjárfestar verða að fá að breyta og fjarlægja ýmis gömul og úr sér gengin hús til að rýma fyrir nýju og betra húsnæði sem hentar verslun í dag. Annars er úti um miðbæjarverslun.
Klámstaðir eru orðnir æ meira áberandi í miðborg Reykjavíkur. Þessum stöðum hefur fylgt eiturlyfjaneysla, glæpir, kvenfyrirlitning og önnur vandræði. Þetta verður að uppræta. Ein afleiðing þessarar þróunar er að verslun hefur hörfað. Það er skylda borgaryfirvalda að stýra þróun miðborgarinnar og leggja megináherslu á að gera hana að öruggum, skemmtilegum og fjölbreyttum stað þar sem óhætt er að fara um á öllum tímum. Þær skyldur sínar hafa borgaryfirvöld í Reykjavík gjörsamlega vanrækt.
Á næstu misserum mun framtíð miðborgar Reykjavíkur ráðast. Smáralind í Kópavogi, stærsta verslunarmiðstöð á Íslandi, er eitt öruggusta merki um athafna- stefnu- og metnaðarleysi borgarstjórnar Reykjavíkur. Kaupmenn fagna nýjum og glæsilegum verslunarmiðstöðum, sem sinna síbreytilegum þörfum viðskiptavina, en telja það jafnframt vera skyldu sína að standa vörð um uppbyggingu og viðgang miðborgar Reykjavíkur.
Með áframhaldandi undanhaldi breytist miðborg Reykjavíkur í samsafn sóðabúlla þar sem stórhættulegt er að fara um þegar skyggja tekur. Við kaupmenn hvetjum alla til að standa saman í að skapa lifandi miðborg með fjölbreytta starfsemi, sem getur verið okkur öllum til sóma.