Austurstræti var lokað fyrir bílaumferð sumarið 1973, fyrst „í tilraunaskyni‟. „Tilrauninni“ var þó fram haldið, þrátt fyrir að nánast hver einasti kaupmaður við Austurstræti ritaði nafn sitt undir mótmælaskjal gegn áframhaldandi lokun haustið 1973. Svo fór að lokun götunnar varð banabiti verslunar við Austurstræti og nálægar götur þar sem áður var miðpunktur verslunar í Reykjavík, en fjöldinn allur af glæsilegum búðum var áður við Hafnarstræti, Aðalstræti og fleiri götur í Kvosinni.
Bjarni Sigtryggsson skrifaði áhugaverð grein í Alþýðublaðið í nóvember 1973 og fjallaði um reynsluna af lokun götunnar. Þar sagði hann meðal annars:
„Það var óneitanlega nokkur sjarmi yfir hugmyndinni um Austurstræti sem göngustíg þegar þær voru ræddar af alvöru í vor, og teiknimyndir af fólki á ferð í rólegheitum á hellulögðu planinu innan um trjágróður litu svo vel út, að um leið og þær birtust í blöðum var komið almannasamþykki fyrir hugmyndinni. En þetta samþykki var af þeirri gerðinni, sem grundvallast á nýjabrumi. Örfáum dögum áður en götunni var lokað var enn verið að æfa strætisvagnastjóra í að ná beygjunni úr Lækjargötu inn í Skólabrú án stórslysa, og gekk varla stórslysalaust.“
Flest leit þó vel út í byrjun, þegar hér skyldi innleitt „Strik“ að danskri fyrirmynd. Grípum aftur niður í grein Bjarna:
„En hvað gerðist í rauninni þegar Austurstræti var á einni nóttu kippt út úr kvæði Tómasar og inn í danska hugmynd? Við vitum það nú. Kaupmenn hafa, sem sannir umboðsmenn Mammons, fengið heim sönnur fyrir því að verzlun í búðum þeirra hefur dregizt saman. Ein meginástæða fyrir því er auðvitað sú, að flestir sem koma til að verzla, geta hvergi lagt bifreiðum sínum, og þá færast viðskiptin út í hverfin þar sem bílastæði eru næg.“
Og mannlífið breyttist til verri vegar, líkt og kaupmennirnir bentu á í mótmælaskjali sínu haustið 1973. Bjarni komst svo að orði:
„Það fólk, sem helst setti svip sinn á götuna varð útigangslýður og pörupiltar.“
Bjarni staðnæmdist því næst við eitt merkilegasta menningarfyrirbæri Reykvíkinga:
„Og síðast en ekki síst komum við að þeim breytingum, sem urðu á því sérkenni borgarlífsins í Reykjavík, sem ef til vill er okkar sérkenni, og víst er að margir erlendir komumenn hafa heillast að. Það var þegar rúnturinn dó. Ef til vill fór þessi sérstaka samkoma fram í óþökk einhverra ráðamanna, og vissulega voru ekki allir lögreglumenn hlynntir því líflega og litskrúðuga tilbrigði reykvísks mannlífs, sem tendraðist í miðborginni eftir kvöldmatartíma. Enginn mun nokkru sinni lýsa því betur en skáldið Tómas Guðmundsson, hverja sál Austurstræti hafði — og eftir hálfs misseris reynslu af lokun Austurstrætis vitum við það að miðborgin er ekki í dag sá samkomustaður borgarbúa sem hann hefur verið á kvöldin um áratuga skeið.“
Versluninni hnignaði ár frá ári og svo að segja engar búðir finnast lengur á því svæði sem áður var miðpunktur verslunar í borginni. Enn er all nokkur verslun á Laugavegi, en rétt að spyrja sig hvort borgaryfirvöld ætli ekki að læra af reynslunni? Grípum niður í lokaorð greinar Bjarna Sigtryggssonar frá árinu 1973:
„Það er engu líkara en Reykjavík hafi glatað hluta af sálu sinni. Og það er aðeins einni spurningu ósvarað ennþá: Í hvers þágu?“