Kristján Siggeirsson var fæddur árið 1894, sonur Siggeirs Torfasonar, kaupmanns í Reykjavík, og konu hans Helgu Vigfúsdóttur. Að loknu námi í Verslunarskóla Íslands nam Kristján húsgagnasmíði hjá Jóni Halldórssyni & Co. og lauk þar sveinsprófi. Síðan stundaði Kristján framhaldsnámskeið um skeið í iðngrein sinni í Þýskalandi. Hann lauk meistaraprófi í húsgagnasmíði árið 1913.
Tuttugu og fimm ára að aldri, eða nánar tiltekið 14. ágúst 1919, stofnsetti Kristján húsgagnaverslun, en hún var allt frá byrjun staðsett að Laugavegi 13, í húsnæði sem var í eigu föður Kristjáns. Fyrst í stað hafði hann eingöngu á boðstólum húsgögn, er hann flutti sjálfur inn erlendis frá, en á þeim árum var innflutningur húsgagna frjáls. Mest var keypt inn frá Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi, en í tenglsum við verslunina var lítið verkstæði til að setja saman húsgögn sem voru ósamsett.
Strax á fyrstu árum fyrirtækisins var þó hafin framleiðsla á húsgögnum, en verkstæðið var í bakhúsum að Laugavegi 13. Þar unnu um tíu til fimmtán menn við framleiðslu. Þá voru einkum framleiddar ýmsar tegundir af stofuskápum, kommóðum, grindum fyrir sófasett og fleira, því að bólstrun var einn þáttur starfseminnar. Einnig var um skeið rekin málaravinnustofa, þar sem húsgögn voru máluð.
Árið 1922 keypti Kristján húseignina að Laugavegi 13 af föður sínum og reisti steinsteypt hús austan við það sex árum síðar. Á neðstu hæð þess húss var húsgagnverslunin staðsett. Á þeim árum seldi verslunin um þrjú þúsund stóla á ári, sem var gríðarlega mikið á þeirra tíma mælikvarða. Árið 1937 var byggt hús að Smiðjustíg 6 fyrir framleiðsluna og aftur var byggt við húsið 1942. Jafnframt þessum auknu umsvifum fjölgaði starfsmönnum fyrirtækisins og það hafði meira umleikis en áður. Árið 1953 var hornhúsið að Laugavegi 13 flutt og byggt þar verslunar- og skrifstofuhús, sem er eitt hið stærsta í miðbænum.
Kristján Siggeirsson hf. óx ár frá ári og 1963 voru fengnir sænskir tæknimenn til að gera skipulag að nýrri verksmiðju sem hóf rekstur ári síðar. Hér var um stórt stökk að ræða frá lítilli verksmiðju við Smiðjustíg í 2500 fermetra verksmiðju við Lágmúla. Við inngöngu Íslands í EFTA árið 1970 hófst á nýjan leik innflutningur á húsgögnum, en framleiðslan var áfram umfangsmikil.
Kristján var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1974. Hann stýrði fyrirtæki sínu allt þar til hann lést 1975. Síðustu árin naut hann þó dyggrar aðstoðar sonar síns, Hjalta Geirs húsgagnaarkitekts, við stjórnun fyrirtækisins.
Árið 1983 opnaði fyrirtækið húsgagnaverslunina Habitat að Laugavegi 13 í samstarfi við Habitat-fyrirtækið í Bretlandi. Með þessu stækkaði Kristján Siggeirsson hf. viðskiptamannahóp sinn, en í Habitat fengust einkum húsgögn og búsáhöld í björtum litum á viðráðanlegu verði.
Húsgagnaverslanirnar eru horfnar á braut, en að Laugavegi 13 er nú meðal annars rekin Gullkúnst Helgu. Kristján Sigeirsson hf. sameinaðist Gamla Kompaníinu hf. árið 1990 og stofnað var nýtt stórfyrirtæki í íslenskum húsgagnaiðnaði GKS sem enn starfar með miklum myndarbrag.
Heimildir: Morgunblaðið, 25. ágúst 1979, Frjáls verslun, 8. tbl. 1979 og fleiri.