Kristinn Einarsson fæddist 6. desember 1896 á Grímslæk í Ölfushreppi, Árnessýslu, sonur hjónanna Einars Eyjólfssonar bónda þar og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur. Hann lauk prófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1916 og gerðist kaupmaður í Reykjavík árið 1918. Þar með fetaði hann í fótspor eldri bróður síns, Marteins Einarssonar, sem frá árinu 1912 rak samnefnda verslun og reisti stórhýsið að Laugavegi 31, þar sem Alþýðubankinn var seinna til húsa og síðar biskupsstofa.
Árið 1919 stofnaði Kristinn leikfanga- og búsáhaldaverslunina K. Einarsson & Björnsson, í félagi við Hjalta Björnsson. Verslunarskólamenntunin reyndist Kristni haldgóð, sér í lagi þýskukunnáttan, en hann átti sín viðskipti við Þjóðverja allt frá 1918. Kristinn tók yfir reksturinn árið 1923 og 1945 var fyrirtækið gert að hlutafélagi. Verslunin K. Einarsson & Björnsson var fyrstu 28 árin rekin í leiguhúsnæði í Bankastræti 11, en frá árinu 1947 á Laugavegi 25. Fyrir jólin 1962 flutti hún í ný og glæsileg húsakynni, sem byggð voru við hliðina á gömlu versluninni, og var verslunin þar á tveimur hæðum.
Fyrirtækið leitaðist ávallt við að hafa á boðstólum fjölbreytt og gott úrval af leikföngum, gjafavörum og búsáhöldum. Stóran hluta af vörunum flutti verslunin inn beint erlendis frá og þannig var kappkostað að ná sem hagstæðustum innkaupum á hverjum tíma.
Kristinn keypti verslunina Dyngju í Reykjavík árið 1940 og flutti hana að Laugavegi 25. Hann var framkvæmdastjóri hennar frá þeim tíma þar til verslunin hætti árið 1979, síðustu árin ásamt dóttur sinni. Kristinn var einstaklega heppinn með starfsfólk í verslunum sínum. Sigurbjörg systir hans vann áratugum saman í vefnaðarvöruversluninni Dyngju, en þær bróðurdætur Kristins, Sigrún og Vilborg Ólafsdætur, voru auk hans sjálfs andlit leikfangaverslunarinnar. Þær afgreiddu í versluninni í áratugi og báru hag hennar fyrir brjósti líkt og væri þeirra eigin.
Kristinn var spurður í viðtali fyrir jólin í kringum 1975 hvernig honum litist á nýju þroskaleikföngin, sem þá voru mjög í tísku hjá upplýstum og meðvituðum foreldrum. Hann svaraði: „Uss, ég sel ekki svona ljót og leiðinleg leikföng, litlausa kubba og bíla sem ekkert heyrist í. Börn vilja ekki leika sér að þessu. Þau vilja falleg og skemmtileg leikföng og ég skil þau vel.“
Kristinn stýrði K. Einarsson & Björnsson frá stofnun 1919 allt þar til hann lést 1986, níræður að aldri, eða í 67 ár samfleytt. Síðari árin rak hann verslunina í samstarfi við Rudolf son sinn.
Í stórhýsi K. Einarssonar & Björnsson er nú meðal annars rekin Janusbúðin og hárgreiðslustofan Papilla.