Marteinn Einarsson fæddist 25. febrúar 1890 að Grímslæk í Ölfusi. Hann fluttist til Reykjavíkur árið 1908 og vann við verslun afa síns í fjögur ár, en stofnaði svo sína eigin verslun að Laugavegi 44 hinn 16. apríl 1912 og verslaði Marteinn þar með matvörur og ýmiss konar vefnaðarvöru.
Hann rak verslun sína þar til ársins 1918, en þá keypti hann húseignina Laugaveg 29 og flutti verslunina þangað, en hætti verslun með matvöru. Helgi Jónsson gekk þá í félag með honum og bar verslunin æ síðan nafnið Marteinn Einarsson & co. Loks keypti hann brunarústir á horni Laugavegar og Vatnsstígs og byggði stórhýsi það, sem þar stendur enn og seinna hýsti Alþýðubankann frá 1971 og enn síðar biskupsstofu.
Verslunarhús Marteins Einarssonar þykir eitt hið glæsilegast í bænum, en það var reist af miklum stórhug og framsýni á árunum 1928-30. Raunar sagði einn bankastjóri á þessum tíma við Martein að hann hefði ekki hug á að lána til bygginga verslunarhúsnæðis „uppi í sveit“. Í versluninni að Laugavegi 31 verslaði Marteinn jafnt með vefnaðarvöru sem tilbúinn fatnað, hvort heldur sem var á konur eða karla.
Marteinn var tvíkvæntur. Hinn 3. október 1914 kvæntist hann Guðrúnu Magnúsdóttur Móberg, bónda að Arnarfelli, og átti með henni einn son, Gunnar, sem síðar varð annar forstjóri verslunarinnar. Konu sína missti hann árið 1922. Marteinn kvæntist öðru sinni 13. mars 1925 Charlotte Kokert, frá Potsdam. Þau slitu samvistum. Með seinni konu sinni eignaðist Marteinn þrjú börn, Eberhardt, Karen og Martein. Marteinn litli dó af slysförum á unga aldri.
Marteinn lést árið 1958. Eberhardt sonur hans tók við rekstri verslunarinnar ásamt bróður bróður sínum Gunnari og ráku þeir verslunina í nokkur ár.
Það sem helst þótti einkenna Martein var dugnaður hans og hjálpsemi. Hann þótti sérlega áreiðanlegur í öllum viðskiptum. Allir skyldu fá sitt, engan mátti pretta. Sem yfirmaður var Marteinn sérlega vel látinn, enda störfuðu sumir verslunarmenn hjá honum um áratugi.