Hérna að neðan gefur að líta forystugrein 12. tbl. Frjálsrar verslunar frá árinu 1981. Þar er varað við hættum sem stafa að verslun í miðborg Reykjavíkur, en því miður átti flest eftir að koma fram, sem þarna var varað við. Í greininni er nefnt að veltan í verslun í miðborginni hafi numið 331,7 milljónum nýkróna árið 1979, en sé tekið mið af vísitölu neysluverðs með árið 1968 sem grunn jafngildir það um 26,2 milljörðum á verðlagi nútímans (júní 2012).
Á gamli miðbærinn að koðna niður?
Fyrir nokkru fór fram á vegum Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðísins könnun á valvöruverzlun á höfuðborgarsvæðinu, stöðu mála eins og þau eru í dag og hvers vænta megi á komandi árum að gefnum mismunandi forsendum. Með niðurstöðum athugunarinnar fylgja umsagnir um einstök verzlunarhverfi, hversu ákjósanleg þau hafa reynzt fyrir verzlunarreksturinn og hverja framtíð þau eiga fyrir sér.
Gamli miðbærinn í Reykjavík er efstur á blaði enda ekki óeðlilegt því að hann er að sönnu hjarta verzlunar og viðskipta í höfuðborginni og þjónar reyndar miklu stærra svæði. Valvöruverzlun skipar þar mikilvægan sess. í gamla miðbænum reyndust vera 87 þús. fermetrar húsnæðis fyrir valvöruverzlun árið 1979 og veltan var 331,7 milljónir nýkróna að því er segir í gögnum Skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins.
Tölur sýna, að gamli miðbærinn hefur ótvíræða yfirburði yfir önnur verzlunarhverfi á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar er alvarlegt íhugunarefni hvernig þessari blómlegu athafnamiðstöð viðskiptalífsins muni reiða af í næstu framtíð. Sú sýn, sem við blasir eins og nú er ástatt, er síður en svo fögur. Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins hefur eftirfarandi að segja í framhaldi af athugunum sínum:
„Gamli miðbærinn í Reykjavík nýtur þess umfram önnur verzlunarhverfi að vera bæði stór, fjölbreyttur og nálægt stórum atvinnusvæðum. Auk þess er hann eitt elzta verzlunarhverfið og þannig hefur skapazt ákveðin hefð í verzlun þar. Engu að síður hefur verzlun í gamla miðbænum átt við nokkra erfiðleika að stríða, þar eð þungamiðja íbúabyggðar hefur sífellt færzt austar. Auk þess er um ýmsa aðra óhagstæða þætti að ræða, svo sem umferðarhnúta, skort á bifreiðastæðum og einnig hefur verzlunarhúsnæði gengið úr sér.
Niðurstöður þessararkönnunar benda til þess, að ef mikil aukning verður á verzlunarrými annars staðar, geti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir gamla miðbæinn. Sérstaklega á þetta víð ef hugmyndir um uppbyggingu Nýja miðbæjarins í Kringlumýri verða framkvæmdar. Hins vegar myndi uppbygging verzlana í Mjóddinni ekki hafa alvarleg áhrif á gamla miðbæinn, jafnvel þó uppbygging þar yrði töluvert meiri en núverandi áætlanir um 12 000 m2.
Hvað svo sem verður uppi á teningnum í öðrum verzlunarhverfum, þá er líklegt að lagfæra þurfi ýmsa þætti í gamla miðbænum, t.d. auka framboð bifreiðastæða, ef hann á ekki að verða fyrir alvarlegri hnignun. Hversu mikilla endurbóta er þörf, fer að sjálfsögðu eftir því, hversu miklu verzlunarrými er bætt við annars staðar.“
Hér er stórmál á ferðinni. Vitað er að bílastæðum í miðborg Reykjavíkur á eftir að fækka með framkvæmd á nýju skipulagi Grjótaþorps og veltur því á miklu að bílastæði á Arnarhól í tengslum við byggingu Seðlabankahúss verði tilbúin. Viðgangur verzlunarumsvifa í gamla miðbænum í svipuðum mæli og á síðustu áratugum er algjörlega háður því að fólk úr hinum ýmsu borgarhverfum eigi greiðan aðgang á farartækjum sínum að verzlunarkjarnanum.
Furðulítill áhugi virðist vera fyrir hendi hjá ráðamönnum Reykjavíkurborgar að leysa þennan vanda. Hafnarstjóri og borgarverkfræðingur hafa mælt fyrir ákveðnum hugmyndum um byggingu bílageymsluhúsa í miðborginni, en fyrir daufum eyrum hinna pólitísku valdhafa. Tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um undirbúning raunhæfra framkvæmda af þessu tagi var vísað frá nýlega í borgarstjórninni.
Forráðamenn fyrirtækjareksturs í gamla miðbænum þurfa að snúa bökum saman í þeirri baráttu sem hafin er fyrir framtíð athafnalífs í þessum borgarhluta. Þeir þurfa að taka upp virka samvinnu við þá fulltrúa á vettvangi borgarmálefna, sem vilja í verki tryggja verzlunarfyrirtækjum gamla miðbæjarins örugga framtíð.