Blaðamaður Frjálsrar verslunar (F.V.) átti viðtal við Pétur Sveinbjarnarson í Ask árið 1982 og ræddi við hann um miðborgarmálin, en Pétur varð síðar framkvæmdastjóri Þróunarfélags miðborgarinnar. Viðtalið hefst á tilvitnun í Pétur:
,,Sú mikla eftirspurn sem er eftir húsnæði við Laugaveginn sýnir og sannar að Laugavegurinn er enn eftirsóttasta viðskiptagata borgarinnar. Hins vegar hefur aukið umferðarálag og bílastæðaskortur leitt til vaxandi erfiðleika jafnt fyrir þá sem reka þar fyrirtæki og viðskiptavini þeirra,“
F.V. — En hvað er til úrbóta?
— „Aðalvandamálið er skortur á bifreiðastæðum, en það hefur í för með sér mjög hæga umferð og ólöglegar bifreiðastöður. Að mínu áliti er nauðsynlegt að gera eftirfarandi. Í fyrsta lagi þarf að byrja á að breyta núgildandi reglum um stöðumæla og rangstöðu ökutækja. Einn aðili, Reykjavíkurborg, á að annast eftirlit með stöðumælum, rangstöðum og ,,zónum“. Borgin á að hafa allar tekjur af aukaleigugjöldum og sektum. Nýtt innheimtukerfi á að taka upp þar sem minnkuð er skriffinnska og framkvæmd gerð einföld t.d. með afslætti til þeirra sem greiða innan 24 klst. Tekjum sem inn koma á að verja óskiptum til byggingar bifreiðageymsluhúsa. Í öðru lagi á að byggja tvö bifreiðageymsluhús strax, annað í Kvosinni, t.d. við Vesturgötu eða Tryggvagötu, og hitt við Hverfisgötu. Sé rétt staðið að hönnun, framkvæmd og rekstri munu slík hús geta staðið undir sér fjárhagslega. Í þriðja lagi á að setja upp „zónur“ í nærliggjandi götum þar sem ekki eru stöðumælar, þ.e. gjaldfrjáls stæði sem eru takmörkuð við ákveðinn tíma, jafnvel allt upp í fjórar klukkustundir. Standi bifreið aftur á móti lengur en leyfilegt er, á að beita viðurlögum. Í fjórða lagi á að reka ókeypis strætisvagnaleið sem hringleið Hlemmur—Lækjartorg eða á milli bílageymsluhúsa og jafnframt um Laugaveg og Hverfisgötu. Allt tal um bifreiðastæði í Vatnsmýri og strætisvagnaleið þaðan er óraunhæft.
Um lokun Laugavegar er það að segja, að það er stór aðgerð sem hefur gífurleg áhrif á alla umferð jafnt fótgangandi sem akandi, svo ekki sé minnst á þau áhrif sem slík lokun getur haft á allt viðskiptalíf og borgarbrag allan. Slík lokun kallar á margþættar hliðarráðstafanir, má þar nefna endurskipulagningu alls umferðarkerfis miðborgarinnar, endurskipulagningu á almenningsvagnakerfi, upphitaðar gangstéttir þvergatna að Laugavegi og jafnvel yfirbyggingu. Það síðastnefnda á mjög langt í land sem raunhæfur möguleiki. Vara verður alvarlega við öllu flani með erlendum reglustikuaðferðum.
Eitt mikilvægasta atriðið sem taka verður tillit til er veðráttan. Einnig verður að taka til endurmats núverandi opnunartíma. Með því að loka Laugavegi og halda óbreyttum þjónustutíma þeirra fyrirtækja sem þar eru, er verið að gera Laugaveginn að gröf mestan hluta sólarhringsins. Einnig er rétt að minna á að á sama hátt og það er dýrt að leigja eða eiga húsnæði við Laugaveginn á að kosta nokkuð meira að leigja þar (í stöðumæli), bifreiðastæði þótt um stuttan tíma sé að ræða.
Umferðar- og bílastæðamálin í Kvosinni og á Laugavegi eru síður en svo illleysanlegt vandamál. Mestur hluti þess vanda sem nú er við að glíma, er tilkominn vegna þess að málin hafa dregist ár eftir ár, mikið er talað og skrifað en ekkert framkvæmt,“ sagði Pétur Sveinbjarnarson að lokum.