Hjálmar Sveinsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, var gestur á fundi stjórnar Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg að morgni 18. júlí sl., en Hjálmar situr í samgönguráði borgarinnar og hefur mikið látið samgöngu- og skipulagsmál til sín taka að undanförnu. Hann sá sér fært að sitja með stjórninni í um tvær klukkustundir og er það þakkarvert.
Á fundum kom í ljós að áherslur Hjálmars í þessum málum fara ekki saman við skoðanir þorra kaupmanna, en Hjálmar kvaðst vilja takmarka bílaumferð og taldi að lokun Laugavegarins hefði ekki í för með sér mikinn samdrátt í verslun. Stjórnarmenn tóku aftur á móti dæmi úr sínum rekstri sem sýna svo ekki verður um villst að lokun götunnar hefur dregið mjög úr viðskiptum. Þá reifuðu stjórnarmenn flest þau sjónarmið sem máli skipta um uppbyggingu verslunar í miðborginni.
Í máli stjórnarmanna kom einnig fram andstaða við því að bann við hjólreiðum á gangstéttum hefði nýlega verið aflétt, en þær geta skapað stórhættu. Hjálmar tók að nokkru leyti undir þessi sjónarmið og kvaðst myndu kanna málið innan borgarkerfisins.
Stjórn Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveginn harmar þó almennt skilningsleysi Hjálmars og annarra kjörinna fulltrúa á högum kaupmanna og þar með verslunar við götuna, en á fundinum bentu stjórnarmenn á mörg dæmi þess hvernig kaupmenn hefðu jafnan reynst sannspáir um þróun verslunar í miðborginni, en margir kaupmenn í Samtökunum hafa um og yfir 40 ára reynslu af verslunarrekstri við götuna. Það er miður að borgaryfirvöld vilji ekki nýta sér þá miklu þekkingu sem gamalreyndir kaupmenn búa yfir.
Hér annars staðar á síðunni má lesa þrjátíu ára gömul viðtöl við kaupmenn við Laugaveginn sem viðruðu nákvæmlega sömu viðhorf og kaupmenn hafa uppi nú, en vonandi munu kjörnir fulltrúar Reykvíkinga sýna meiri skilning á málefnum miðborgarinnar á komandi misserum og árum.