Laust fyrir jólin 1985 mynduðu hagsmunaaðilar í miðborginni með sér samtökin „Gamli miðbærinn“. Formaður þeirra samtaka var Guðlaugur Bergmann í Karnabæ, en aðrir í stjórn voru kjörnir Ásgeir Hannes Eiríksson, pylsusali, Baldvin Jónsson, Morgunblaðinu, Bolli Kristinsson, versluninni Sautján, Edda Ólafsdóttir, lögfræðingur, Einar Óskarsson, Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar, Guðni Pálsson, arkitekt, Haukur Gunnarsson, Rammagerðinni, Helga Bachmann, Þjóðleikhúsinu, Jafet Ólafsson, Sambandinu, Jón Hjaltason, Óðali, Páll Bragi Kristjónsson, Skrifstofuvélum hf., Pétur Arason, Faco, Sigurður Steinþórsson, Gulli & Silfri, og Skúli Jóhannesson, Tékk-Kristal. Í varastjórn sátu Garðar Kjartansson, Sportvali & Bikarnum, Guðmundur Sigmundsson, Bókabúð Braga, Einar Högnason, Skóverslun Axels Ó., Ásgeir Ásgeirsson, Kúnigúnd, og Benedikt Geirsson, SPRON.
Fjallað var um samtökin Gamla miðbæinn og rætt við framkvæmdastjóra þeirra, Sigurð Kolbeinsson í Helgarpóstinum 30. apríl 1986. Þar bar margt á góma, en í aðsigi var stofnun verslunarmiðstöðvar í Kringlumýri. Þá var bent á margar hættur sem steðjuðu að miðborginni, til að mynda vegna umferðarhnúta og fárra bílastæða. En bæta þyrfti aðgengi til muna. Síðan þá hefur verslunum og þjónustufyrirtækjum fækkað stórkostlega í miðborginni. Hérna að neðan birtist greinin í heild sinni:
Kalblettur í borginni eða lifandi hverfi?
Þeir eru kallaðir kalblettir stórborganna, blettirnir þar sem allt mannlíf deyr út kl. 17, þegar skrifstofurnar loka. Oft er þetta hlutskipti gömlu miðbæjarkjarnanna — að verða næsta íbúalaus skrifstofu og í besta falli, verslunarhverfi. Velmegandi íbúar flytja í úthverfin, þar sem einnig rísa gríðarstórar verslunar- og þjónustumiðstöðvar svo að lokum hefur fólk lítið sem ekkert að sækja í gamla miðbæinn. Hann kelur.
Verður þetta einnig hlutskipti gamla miðbæjarins í Reykjavík?
Nei, segja félagsmenn „Gamla miðbæjarins“ sem er félag stofnað beinlínis til að koma í veg fyrir þessa þróun. Að vísu eiga allflestir félagsmenn, ef ekki allir, hagsmuna að gæta því þetta er félag verslana, þjónustufyrirtækja, húseigenda og stofnana í miðbænum — en auk þess eiga íbúasamtök rétt á inngöngu. Markmið félagsins er sett fram í lögum þess. „Tilgangur félagsins er að efla mannlífið í gamla miðbænum, standa vörð um eignir og söguleg verðmæti og stuðla að eðlilegri uppbyggingu. Efla þjónustu og viðskipti jafnt sem menningarlíf og útivist, umhverfis-, skipulags- og umferðarmál og annað sem þjónar auknu mannlífi.“
En hvað er gamli miðbærinn?
Jú, gamli miðbærinn er svæðið allt frá Garðastræti, niður Vonarstrætið, upp Skólavörðuholtið og upp á Snorrabraut og síðan allt niður að sjó. Gamli miðbærinn er vinnustaður um 6000 manns. Tugþúsundir annarra fara um svæðið á degi hverjum. Enginn treystir sér til að geta til um fjölda bíla sem fara um miðbæinn. Þar eru 50 almennar fataverslanir, 43 tískuvöruverslanir og 14 barnafataverslanir. Þar eru 31 bóka- og ritfangaverslun og 38 veitinga- og kaffihús. Á sextíu og einni skrifstofu er hægt að leita aðstoðar lögfræðinga, fasteignasala og arkitekta og á 30 stöðum leita læknishjálpar. Það eru fjögur apótek, 16 ferðaskrifstofur, 30 hárgreiðslustofur og rakarastofur og 25 snyrtistofur. Alls eru fyrirtæki og stofnanir um 830, og eins og áður segir vinna þar tæplega 6000 manns, og þar af koma tæplega 3000 á bílum til vinnu sinnar. Þessir 3000 starfsmenn sem koma á bílum sínum til vinnunnar taka 3000 bílastæði. Enginn veit með vissu hversu mörg bílastæði eru á svæðinu í allt — enda bílum troðið á hvern auðan blett. Allir Reykvíkingar kannast við hvernig það er að reyna að finna bílastæði á Laugaveginum, Hverfisgötunni, eða Skólavörðustígnum seinnipartinn á föstudegi — og hvernig umferðin sniglast áfram kringum strætóana sem allir virðast keyra Laugaveginn.
Enda eru þetta málaflokkar sem „Gamli miðbærinn“ vill hafa afskipti af. Félagar „miðbæjarins“ hafa þegar beint því til starfsfólks verslana að það leggi bílum sínum í nokkurri fjarlægð frá vinnustað til að taka ekki upp öll nálæg bílastæði og eins reynir félagið að vekja athygli á stórum bílastæðum í útjaðri svæðisins, t.d. við Lindargötu og Skúlagötu, sem eru lítt notuð. Annars eru götur gamla miðbæjarins flestar þröngar og þola illa þá miklu umferð sem þar fer um. Til dæmis hefur umferð um Grettisgötu og Njálsgötu stóraukist eftir að bannað var að beygja inn á Laugaveginn af tveimur þvergötum hans. Göturnar fyrir ofan Laugaveg þola engan veginn þetta aukna álag enda skapast þar nú oft umferðarhnútar.
Þá er mikil strætisvagnaumferð um Laugaveginn og telja forsvarsmenn „Gamla miðbæjarins“ að rétt væri að beina strætisvögnum sem t.d. flytja fólk vestur í bæ, af Laugaveginum, en hafa í staðinn vagna sem stöðugt gengju hringinn, niður Laugaveg og upp Hverfisgötu — aðrir vagnar færu t.d. Skúlagötuna, þannig að það fólk sem ætlaði á Laugaveginn skipti um vagn á Hlemmi.
Stórmarkaðir ógna
„Það er okkur öllum mikið áhyggjuefni þegar hallar undan fæti í gamla miðbænum. Gróin fyrirtæki flytja starfsemi sína í önnur borgarhverfi eða hætta rekstri. Á meðan þenst borgarlandið út í aðrar áttir og nýjar miðstöðvar rísa fyrir verslun og þjónustu, skipulagðar sem eitt fyrirtæki meðan gamli miðbærinn er skipulagslaus og án forystu.“
Þannig m.a. hljómaði fundarboð þeirra sem stóðu að stofnun „Gamla Miðbæjarins“ en undir bréf það sem þessi klausa er úr skrifuðu þeir Skúli Jóhannesson, Tékk-Kristal, Guðlaugur Bergmann, Karnabæ, Jón Hjaltason, Óðali, Bolli Kristinsson, Versl. 17, Pétur Arason, Faco, Sigurður Steinþórsson, Gulli og silfri og Ásgeir Hannes Eiríksson, pylsusali.
Nú þegar hafa risið í úthverfum Reykjavíkur og nágrannabyggðarlögum stórmarkaðir þar sem tugþúsundir neytenda versla inn í viku hverri, og þá ekki einungis matvæli heldur bjóða stærstu stórmarkaðirnir upp á yfirleitt allt milli himins og jarðar — og oft á mjög hagstæðu verði.
Og nú fer að líða að því að sá alstærsti bætist í hópinn — Hagkaup í nýja miðbænum — en þar segir orðrómurinn að sé jafn mikið verslunarhúsnæði og beggja vegna Laugavegarins, allt frá Hlemmi, niður Bankastrætið, Austurstrætið og niður að Morgunblaðshúsinu.Í þessu gríðarmikla húsi verður stórmarkaður Hagkaups, sem er einn þeirra sem selja allt milli himins og jarðar, IKEA húsgagnaverslun, og tugir sérverslana að ógleymdri áfengisverslun með kjörbúðarsniði. Og þetta allt verður undir einu þaki og sjálfsagt með hæfilegum fjölda skyndibitastaða og „kaffihúsa“. Það er því varla nema von að kominn sé glímuskjálfti í kaupmenn við Laugaveginn, því hingað til hefur enginn stórmarkaður eða verslunarmiðstöð getað boðið nálægt því jafnmikið úrval vörutegunda eða fjölda verslana og gamli miðbærinn og því aldrei ógnað tilveru hans sem verslunarsvæðis — þótt eitthvað hafi dregið úr verslun þar eftir að úthverfamiðstöðvarnar fóru að rísa. Þetta getur nýja Hagkaupshúsið hins vegar gert. Þar verða tugir verslana í húsi sem er sérlega hannað fyrir þennan rekstur — á meðan liðast bílalestirnar um þröngar götur miðbæjarins sem engan veginn geta borið alla þessa umferð með góðu móti og bílstjórar skyggnast um eftir auðum bletti til að parkera á — og finna ekki.
En „Gamli miðbærinn“ getur búið sig undir samkeppnina. Og sá undirbúningur er þegar hafinn. Sérstök fegrunarnefnd félagsins vinnur að því að gera svæðið sem mest aðlaðandi og hvetur félagsmenn til hreingerninga og andlitslyfinga. Starfsfólk verslana er hvatt til að leggja fjarri miðbæjarkjarnanum og skilja þannig bílastæðin eftir fyrir viðskiptavini og önnur minna notuð bílastæði eru kynnt og merkt. Félagið hefur ákveðnar hugmyndir í umferðar- og strætisvagnamálum sem það er að kynna yfirvöldum — hugmyndir sem menn telja að geti létt á umferðinni og auðveldað akstur um bæinn.
Félagið hefur á stefnuskrá sinni að koma snjóbræðslukerfum í allar gangstéttir hverfisins. Nú þegar eru slík kerfi komin í langa kafla á t.d. Laugavegi og er það mikil bót frá því sem áður var að gangandi vegfarendur ösluðu elginn upp á miðja kálfa ellegar þá hröktust út á götuna. Þá hefur félagið til athugunar að opna a.m.k. þrjár barnagæslur þar sem hægt verður að skilja börn eftir í gæslu á meðan foreldrarnir arka í verslunarleiðangur. Og loks hafa félagar „miðbæjarins“ lengt
opnunartíma verslana sinna, með því að hafa opið á laugardögum frá 10:00—14:00 og er það gert m.a. vegna opnunartíma stórmarkaðanna.
Ekki kaupmannasamtök!
Sigurður K. Kolbeinsson er framkvæmdastjóri „Gamla miðbæjarins“. Hann var ráðinn í byrjun nóvember, fyrst til að vinna að undirbúningi félagsins og síðan sem framkvæmdastjóri þess er það var stofnað þann 14. nóvember. Hann er núna þessa dagana að koma sér fyrir á nýrri skrifstofu félagsins að Austurstræti 17, 4. h., en áður fékk félagið inni hjá Faco á Laugavegi 37. Sigurður neitaði því að „Gamli miðbærinn“ væru kaupmannasamtök og sagði að tilgangur félagsins væri að lífga upp á mannlífið í gamla miðbænum og hvetja til útivistar. „Við munum vinna að verndun gamalla húsa og yfirleitt öllum málefnum sem snerta gamla miðbæinn,“ sagði Sigurður í samtali við HP.
Sigurður tók formlega við embætti framkvæmdastjóra félagsins á fyrsta stjórnarfundi þess 19. nóv. sl. og hóf þá þegar undirbúning að starfi félagsins í desember, auk þess sem mikill tími hefur farið í að afla nýrra félagsmanna og innheimta félagsgjöld, sem eru 3000 kr. á hvert fyrirtæki. Í desember gaf f élagið m.a. út auglýsingakálf sem var látinn fylgja Morgunblaðinu. í þessum kálfi var félagið kynnt og birt viðtöl og greinar um málefni gamla miðbæjarins. Þá stóð félagið fyrir ýmsum uppákomum í jólamánuðinum, og sagði Sigurður að menn hefðu orðið varir við aukningu í verslun á svæðinu í kjölfar alls þessa. Nú er unnið að útgáfu „handbókar“ um svæðið sem einungis verður dreift til félagsmanna og starfsfólks í fyrirtækjum félagsmanna. Bókin mun m.a. gefa afslátt í öðrum verslunum á svæðinu.
Af þeim rúmlega 800 fyrirtækjum og stofnunum sem eru á félagssvæðinu, eru 340 þegar orðnir félagar og margir volgir, að sögn Sigurðar — enda stefnt að því að allflestir þeir sem versla á svæðinu, eiga þar húsnæði eða reka einhverja þjónustu verði með.