Pétur Sveinbjarnarson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags miðborgarinnar, var í viðtali við Morgunblaðið í júnímánuði 1991, en það viðtal má lesa hér annars staðar á síðunni. Í tengslum við viðtalið setti hann fram framtíðarsýn fyrir miðborgina í tíu punktum:
Að 10 árum liðnum er framtíðarsýn Péturs Sveinbjarnarsonar, framkvæmdastjóra Þróunarfélags Reykjavíkur um miðborgina þessi:
Bílageymsla undir Austurvöll: Hótel Borg hefur verið stækkuð um helming, undir Austurvelli er bílageymsla fyrir 200 bíla og því ekki lengur skortur á bílastæðum vegna útfara frá Dómkirkjunni. Búið er að helluleggja Austurvöll að hluta.
Hellulögn: Kvosin hefur öll verið hellulögð, hitalagnir settar í allar gangstéttir og götur. Ekki hefur sést snjór í Kvosinni síðustu sex ár.
Víkingubær: Á horni Aðalstrætis og Túngötu stendur bær Ingólfs Arnarsonar. Hann er mest sótti staður landsins af erlendum ferðamönnum enda það eina sem minnir á upphaf byggðar á Íslandi í miðborginni.
Nýbygging Alþingis: Við Kirkjustræti hefur Alþingi byggt fallega skrifstofubyggingu með 30 herbergjum fyrir þingmenn.
Skúlatorg: Þar sem áður var Hallærisplan er nú Skúlatorg og við það stendur Borgarbókasafn, sem hætt var við að byggja í Kringlunni. Eftir að gamla Sjálfstæðishúsið var rifið hefur Vallarstræti, á milli Austurvallar og Skúlatorgs, verið opnað undir gleryfirbyggingu. Það er svokallað innstræti með mörgum smáverslunum.
Tryggvaborg: Stærsta framkvæmdin í miðborg Reykjavíkur er Tryggvaborg við Tryggvagötu. Öll húsin frá Tryggvagötu 11–21 hafa verið samtengd í eina viðskipta-, þjónustu- og samgöngumiðstöð. Þar eru einnig fjölmargar skrifstofur; Tollstjóri, skattstjóri og embætti sýslumannsins í Reykjavík, sem var stofnað 1992.
Aðalstöðin: Þar sem áður var bifreiðastæði Akraborgarinnar er bílageymsluhús fyrir 234 bíla með ýmissi þjónustu við bifreiðaeigendur. Fyrir austan Tollstöðina er samgöngumiðstöðin Aðalstöðin fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Þar er viðkomustaður strætisvagna Stór-Reykjavíkursvæðisins, leigu- og langferðabíla og vagnsins til Keflavíkurflugvallar. Uppi á þaki er þyrlupallur sem er notaður í vaxandi mæli.
Bílageymsla í Arnarhóli: Frá Aðalstöðinni er undirgangur undir Lækjargötu í Arnarhól, þar sem bílastæði er fyrir 800 bíla ein stærsta bílageymsla landsins. Inni í Arnarhóli fer fram margskonar markaðs- og skemmtistarfsemi á kvöldin og um helgar. Gegnum bílageymsluna er rafmagnsstigi að Arnarhvoli og húsi Hæstaréttar, þar sem áður var Landsbókasafn. Því er hægt að ganga undir „þaki“ frá Lindargötu vestur að Hafnarbúðum og einnig á milli Dómshúss og Hæstaréttar.
Sædýrasafn: Á Grófarbryggju, þar sem Ríkisskip voru, er starfrækt sædýrasafn.
Strætisvagnaferðir: Stöðugar strætisvagnaferðir eru á milli Þjóðminjasafns, Listasafns Íslands, Ráðhúss, Víkingabæjar við Aðalstræti og sædýrasafns á Grófarbakka.
Matarmiðar: Búið er að loka öllum stórum mötuneytum banka og stofnana. Launþegar fá að skreppa út í hádeginu og nota matarmiða á hinum fjölmörgu veitingastöðum sem risið hafa í miðborginni.
Veltusund opnað: Búið er að opna Veltusund á milli Landsímahúss og Aðalstrætis 6. Frá Hressó er falleg gönguleið í gegnum Fógetagarðinn, alla leið niður að Tjörn.
Rafmagnsstigar: Við Klapparstíg og Vitastíg hefur verið byggt yfir aðra gangstéttina frá Skúlagötu/Sæbraut og settir upp rafmagnsstigar. Eldra fólk sækir mikið upp á Laugaveginn.
TÍU Stór verslunarhús: Laugavegurinn hefur haldið velli sem aðal verslunargata landsins. Þar er búið að endurnýja verslunarhúsin að verulegu leyti, m.a. hafa verið byggðar 10 stórar sérverslanir á fimm hæðum.
Hverfisgata eftirsótt: Eftir að framkvæmdum við Sæbrautina lauk, minnkaði umferð um Hverfisgötu, sem er orðin ein fallegasta gata Reykjavíkur. Þar er eftirsótt íbúðarbyggð ásamt litlum verslunum.
Iðandi mannlíf: Í miðborginni, allt frá Garðastræti að Hlemmi, er iðandi mannlíf frá morgni til kvölds alla daga vikunnar.