Borgaryfirvöld hafa undanfarið kynnt áform sín um að loka Laugavegi fyrir bílaumferð, án þess þó að þær fyrirætlanir hafi verið rökstuddar að neinu marki. Sjálfur hef ég starfað í verslun við Laugaveginn í bráðum tólf ár. Síðastliðin ár hefur götunni stundum verið lokað, til að mynda á laugardögum, og hefur verslunin varla verið svipur hjá sjón umrædda daga. Margir viðskiptavinir, svo sem aldraðir og öryrkjar, eiga erfitt með gang og sumum þarf að aka upp að dyrum. Þá eru ýmsar vörur sem verslanir afgreiða þess eðlis að þeim þarf að koma beint í bifreiðar viðskiptavina, svo sem stórar tertur og ýmsir fyrirferðarmiklir munir. Lokun Laugavegar mun því óhjákvæmilega hafa í för með sér að stærri verslunum mun fækka og rekstur við götuna almennt verða einsleitari.
Borgaryfirvöld lokuðu Laugavegi í júlímánuði í fyrra. Í öllum þeim verslunum þar sem ég þekki til dróst velta umtalsvert saman í júlí 2011 samanborið við júlímánuð árið áður, þrátt fyrir einmuna veðurblíðu í fyrra sumar. Aftur á móti jókst velta í sömu verslunum í ágúst miðað við sama mánuð árið áður. Vart þarf frekari vitnana við um hversu hörmuleg áhrif lokun götunnar hefur á verslun. Kaupmenn mega ekki við frekari tilraunastarfsemi borgaryfirvalda á sama tíma og smásöluverslun á í vök að verjast, sér í lagi í miðborg í Reykjavíkur.
Á áttunda áratugnum var hluta Austurstrætis lokað fyrir bílaumferð. Sú lokun varð banabiti verslunar á því svæði, en áður fyrr var þar í grenndinni fjöldi glæsilegra fyrirtækja og Kvosin miðpunktur verslunar í Reykjavík. Gamlir Reykvíkingar muna eftir Edinborg í Hafnarstræti, Geysi í Aðalstræti, Haraldi Árnasyni í Austurstræti, Karnabæ við sömu götu, Ellingsen við Hafnarstæti, Vesturveri í Aðalstræti, L.H. Müller í Austurstræti, Silla og Valda við Aðalstræti og Austurstræti og svo mætti lengi telja. En á þessu svæði var líka fjöldi stórra fyrirtækja með skrifstofur sínar, svo sem Almennar tryggingar og Eimskipafélagið í Pósthússtræti, Landssíminn við Austurvöll, Morgunblaðið við Aðalstræti og þá voru allir stóru bankarnir með höfuðstöðvar sínar við Austurstræti. Nú er þetta svæði vart svipur hjá sjón og varla að þar þrífist önnur starfsemi en öldurhús og minjagripaverslanir.
Sama þróun mun óhjákvæmilega verða við Laugaveginn ef borgaryfirvöld halda áfram að hefta aðgengi borgaranna að verslunum við götuna. Þegar umsvifamiklar verslanir hverfa kemur nærri því alltaf „veikari“ starfsemi í staðinn. Þannig hefur miðborginni hnignað stöðugt á umliðnum árum og áratugum. Þá hefur fasteignaeigendum einnig í mörgum tilfellum verið meinað að reisa myndarleg verslunarhús, en Reykjavíkurborg hefur þess í stað kosið að „skapa fornminjar“ svo sem húsin sem reist voru neðst á Laugavegi. Þau hús þjóna illa því hlutverki að vera nútíma verslunarhús, enda aðgengi erfitt með háum þrepum, gólfflötur lítill og útstillingarglugga vantar. Einn stjórnmálamaðurinn vildi með þessu viðhalda „19. aldar götumynd Laugavegar“, en sú götumynd er ekki til og verður aldrei endursköpuð þrátt fyrir einbeitta fortíðarþrá.
Þeir sem hvað harðast hafa barist fyrir lokun Laugavegar vísa gjarnan til vilja íbúasamtaka miðborgarinnar – að það sé „vilji íbúanna“ að loka götunni. Nú verð ég að játa að ég þekki ekki til umræddra samtaka, eða þess hversu hátt hlutfall þeirra þúsunda sem búa í miðborg Reykjavíkur eru í samtökunum. Hins vegar þykir mér þetta viðhorf illskiljanlegt. Ef Laugavegi er lokað fyrir bílaumferð leitar umferðin inn í hverfin. Hvernig má það vera að íbúum þyki slíkt eftirsóknarvert? Neðsta hluta Skólavörðustígs var lokað fyrir bílaumferð í desember og leitaði umferðin þá inn Bergstaðastræti – inn Þingholtin – og skapaði stórhættu fyrir gangandi vegfarendur í því íbúðahverfi.
Þeir sem hafa talað fyrir lokun Laugavegar nefna að gatan sé menningar- og mannlífsgata og er það vel. Ekki var þó minna mannlíf við Laugaveg í ágústmánuði í fyrra þegar gatan hafði aftur verið opnuð fyrir bílaumferð, heldur en verið hafði mánuðinn áður meðan gatan var lokuð. Og úr því að minnst er á menninguna, þá er menningin í miðborginni ekki hvað síst fólgin í versluninni sjálfri, sér í lagi verslunum sem starfað hafa um áratugaskeið og þjónað nokkrum kynslóðum Reykvíkinga, veitt fjölda manns atvinnu og greitt skatta og skyldur til borgarinnar. Þá er það merkilegt menningarfyrirbæri ungra sem aldinna Reykvíkinga að aka rúntinn og virða fyrir sér vörur í útstillingargluggum verslana. Rúntinum er ógnað með lokunum borgaryfirvalda.
Borgaryfirvöldum hlýtur að vera annt um að myndarleg verslun fái þrifist í miðborginni, en til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að viðskiptavinir geti komist að verslunum á þeim fararmáta sem þeir kjósa. Yfirgnæfandi meirihluti borgarbúa kýs að notast við fjölskyldubílinn og vill geta lagt honum nærri verslunum. Ef viðskiptavinirnir komast ekki að verslunum með góðu móti fara þeir annað.
Lokun Austurstrætis varð banabiti verslunar í Kvosinni og ætti það að verða borgaryfirvöldum víti til varnaðar. Án blómlegrar verslunar er enginn miðborg.
Greinin birtist áður á Pressunni, 24. apríl 2012.