Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveginn hafa sent frá sér svohljóðandi ályktun:
Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveginn í Reykjavík mótmæla harðlega áformum um hækkun bílastæðagjalda í miðborginni sem borgaryfirvöld kynntu nýverið. Þar er gert ráð fyrir hækkunum bílastæðagjalda um fimmtíu prósent, auk þess sem til stendur að lengja gjaldskyldu á laugardögum. Umræddar hækkanir á bílastæðagjöldum voru ákveðnar að því er virðist án samráðs við verslunareigendur og aðra hagsmunaaðila á svæðinu. Þær munu fæla viðskiptavini verslana frá miðborginni og auka enn á þann viðskiptaflótta sem er af svæðinu og hefur verið viðvarandi um langt árabil. Verslun í miðborginni á í harðri samkeppni við önnur verslunarsvæði á Stór-Reykjavíkursvæðinu, þar sem aðgengi er auðvelt og engin bílastæðagjöld.
Á tímum almenns samdráttar í smásöluverslun væri rétt að borgaryfirvöld tækju höndum saman með kaupmönnum í miðborginni og stuðluðu að aukinni verslun. Liður í því gæti verið lækkun bílastæðagjalda og fjölgun stæða. Að sama skapi myndi það auðvelda aðgengi að verslunum að fella niður gjaldskyldu á svæðum nærri Laugavegi. Með því móti mætti efla til muna verslun og mannlíf í miðborg Reykjavíkur.